8.7.2014 19:15

Þriðjudagur 08. 07. 14

Samtal mitt við Tómas H. Heiðar, nýkjörinn hafréttardómara, á ÍNN hinn 2. júlí er komið á netið og má sjá þér.

Vegna athugana varðandi utanríkismál rakst ég á neðangreint af tilviljun í netblaðinu Kjarnanum frá 7. nóvember 2013. Þar kemur fram að Kristján Guy Burgess, fyrrverandi aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra, riti greinaflokk um utanríkismál í blaðið. Á einum stað segir:

„En þegar ráðamenn meta strategíska stöðu rangt er ekki von á góðu. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar mistókst illilega að vinna með landafræðina í samningunum við Bandaríkjamenn sem lauk með brotthvarfi varnarliðsins árið 2006. Sambandinu við Bandaríkin var klúðrað með röngu stöðumati, misheppnaðri strategíu um hverju ná skyldi fram, og samningatækni þar sem hurðum var skellt fremur en að leita að sameiginlegri lendingu við Bandaríkjastjórn sem virtist einbeitt í sínum ásetningi að draga saman seglin á Íslandi og nýta herafla sinn annars staðar. Þegar Keflavíkurstöðinni var lokað töluðu áhrifamenn í  Sjálfstæðisflokknum meira að segja um að slíta ætti varnarsamningnum.

Vegna áhugaleysis og vantrúar forystu Sjálfstæðisflokksins á áhrif loftslagsbreytinga og hvernig þær myndu leiða til gjörbreyttrar umræðu um stöðu norðurslóða var ekki leitast við að þróa samvinnu áfram til sameiginlegra verkefna, heldur haldið dauðahaldi í horfna stöðu Kalda stríðsins. Þegar forseti Íslands hóf að vekja athygli á hættunum sem sköpuðust af loftslagsbreytingum á norðurslóðum kallaði forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins það að hann væri að mála skrattann á vegginn og skrattinn væri óskemmtilegt veggskraut. Þetta varð meðal annars til þess að ekkert hafði verið unnið með hugmyndir um sérstaka sameiginlega miðstöð fyrir leit og björgun á norðurhöfum fyrr en Össur Skarphéðinsson tók þær upp á utanríkisráðherrafundi við  Hillary Clinton í Washington vorið 2010. Báðar þjóðir ættu að hafa mikinn hag af slíkri miðstöð.“

Af því sem ég þekki til mála á þeim tíma í samskiptum Íslendinga og Bandaríkjamanna sem þarna er lýst dreg ég þá ályktun að Kristján Guy Burgess hafi ekki hundsvit á því sem hann segir í þessum orðum eða kjósi að fara vísvitandi með rangt mál. Skyldi hann hafa tekið að sér að fegra ráðherratíð Össurar með rangfærslum?

Tíminn hefur leitt í ljós að hið strategíska mat Bandaríkjastjórnar varðandi aðstöðuna á Keflavíkurflugvelli var rangt. Margoft hafði verið rætt um leit og björgun við bandarísk stjórnvöld og breytingar á norðurslóðum. Það var meðal annars gerður sérstakur samningur við bandarísku strandgæsluna. Þótt Össur hafi rætt við Hillary skilaði það engu nýju.