15.7.2014 19:00

Þriðjudagur 15. 07. 14

Gistiheimilið Klif í Djúpavogi reyndist okkur vel. Eftir Austfjarðaþokuna á annesjum á leiðinni frá Höfn í Hornafirði í gær skein nú sól í heiði þegar við skoðuðum Löngubúð þar sem er Ráðherrastofa til minningar um Eystein Jónsson og listaverk eftir Ríkarð Jónsson en báðir eiga þeir rætur frá þessum slóðum.

Í Gleðivík við Bræðsluna skammt utan við Djúpavog eru marmaraegg eftir Sigurð Guðmundsson. Þau eru nokkrir tugir og sniðin eftir eggjum fugla á svæðinu, fuglalífið er fjölbreytt og stærsta ekki er frá lómi. Sjá hér 

Í Bræðslunni var á dögunum opnuð sýningin Rúllandi snjóboltinn 5. Þetta er alþjóðleg sýning með þátttöku 33 listamanna frá Evrópu og Kína. Kínversk-íslenska menningarmiðstöðin, Djúpavogi og Kínversk-evrópska menningarmiðstöðin, Xiamen standa að sýningunni auk Djúpavogs (sjá www.ceac99.org). Sýningin er opin daglega 11.00 til 16.00 til 15. ágúst. Aðgangur er ókeypis. Þeir sem eiga leið um svæðið eru hvattir til að skoða sýninguna. Raunar ætti hún að verða tilefni til að bregða sér úr sunnlensku rigningunni til að ná sér í dálítið af austfirskri sól í leiðinni.

Skammt utan við Djúpavog þegar ekið er í norður er Teigarhorn, þar sem skoða má einstakt safn með nokkrum tegundum geislasteina (zeolíta). Þeir eru fágætir í heiminum. Þarna er einnig Weywadt-hús (1881) sem Þjóðminjasafn lét gera upp að utan árið 2013. Þar bjó meðal annarra Nikoline Wywadt, fyrsti kvenljósmyndari landsins.

Fyrir áhugamenn um endurreisn gamalla húsa er kjörið að fara til Fáskrúðsfjarðar og sjá hve vel og fagmannlega Minjavernd hefur staðið að endurbyggingu gamla franska spítalans, sem nú er Fosshótel, og læknishússins, þar sem nú er vel heppnað safn um franska sjómenn við Íslandsstrendur. Talið er að allt að 4.000 þeirra hafi týnt lífi.

Spítalinn og læknishúsið eru tengd með göngum og þar er eins og gengið sé um borð í franska skútu. Allt er þetta einstaklega haganlega gert. Þá hafa fleiri hús tengd frönsku sjómönnunum verið endurbyggð. Fáskrúðsfjörður er vinabær franska bæjarins Gravelines við Ermarsund, skammt fyrir sunnan Dunkerque. Þegar ekið er inn í þorpið blaktir franski fáninn við hún

Vegagerðin er tekin til við að bora rúmlega 7 km löng göng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og eiga þau að koma til sögunnar í september 2017. Að aka Oddskarðið í sól og blíðu eins og í dag er skemmtileg útsýnisferð. Ég á aðra minningu úr vetrarferðum. Að þessum farartálma verður rutt úr vegi mun setja nýjan svip á mannlífið í Fjarðabyggð ekki síður en endurreisn frönsku húsanna í Fáskrúðsfirði.