11.7.2014 21:03

Föstudagur 11. 07. 14

Ragnar Þór Pétursson kennari skrifar reglulega á vefsíðuna Eyjuna. Í pistli frá miðvikudeginum 9. júlí segir hann í lokaorðum:

„Á mínum „myrkustu“ stundum hlakka ég til þess tíma þegar kaldastríðskynslóðin er komin undir græna torfu. Ég vona bara að hún verði ekki búin að eyðileggja of mikið þegar að því kemur.“

Það er köld kveðja til heillar kynslóðar að óska þess að hún hverfi sem fyrst af yfirborði jarðar. Sé þetta til marks um bætta „umræðumenningu“ í landinu er ástæðulaust að gefa framlaginu háa einkunn þvert á móti er þetta forkastanleg afstaða í garð annars fólks. Má sannarlega segja að menn velji sér mismunandi leiðir til að verða sér til skammar.

Í dag skrifaði ég pistil á Evrópuvaktina þar sem ég rýndi í „umræðumenninguna“ í tengslum við valið á seðlabankastjóra. Hún fær ekki háa einkunn hjá mér. Ef þetta er til marks um að rætt sé um málin af meira viti núna en á tímum kalda stríðsins er ljóst að þeir sem það segja vita ekki neitt frekar en þeir sem ég nefni til sögunnar í pistli mínum.