14.7.2014 19:10

Mánudagur 14. 07. 14

Ókum í dag úr Fljótshlíðinni til Djúpavogs, um 450 km. Ferðaveður var gott, logn alla leiðina. Á stöku stað lá leiðin í gegnum þéttar skúrir. Mikið var af ferðamönnum. Umferðin var greið.

Snyrtimennska blasti við á Kirkjubæjarklaustri og Höfn í Hornafirði. Líklega vakti hún meiri athygli en ella vegna andstæðunnar við hirðuleysið á grænum svæðum í Reykjavík.

Í Kaffi Horninu á Höfn er te borið fram á þann hátt að til fyrirmyndar er. Telauf eru sett í könnur og nokkrar tegundir í boði. Þetta stingur í stúf við tepokamenninguna sem ræður ríkjum á veitingastöðum landsins.

Í Þvottárskriðum var þokuslæðingur sem gerði stórbrotið landslag enn dulúðugra. Skyldi takast að markaðssetja Austfjarðaþokuna eins og norðurljósin?

Áður en við komum á Skeiðarársand hlustuðum við í útvarpinu á upprifjun frá því sem gerðist þar þennan dag fyrir réttum 40 árum þegar hringvegurinn var opnaður með nýjum brúm. Að baki því var meðal annars þjóðarátak með söfnun fjár til þessa einstaka verkefnis.