5.3.1999 0:00

Föstudagur 5.3.1999

Ísland er í formennsku í ráðherranefndum Norðurlandaráðs. Þess vegna kom það í minn hlut að stýra fundum í höfuðstöðvum ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn þennan dag. Klukkan 10.30 hófst fundur menningarmálaráðherranna. Klukkan 11.00 hófst sameiginlegur fundur menningarmálaráðherranna og Nordenudvalget, sem er ein af höfuðnefndum Norðurlandaráðs. Voru fulltrúar nefndarinnar og embættismenn á fundinum milli 20 og 30 manns. Klukkan 12.15 hófst athöfn, þegar http://www.saamiweb.org var opnaður, það er vefur Sama, sem gerður hefur verið af samaútvarpinu. Kom það í minn hlut að flytja ræðu við þessa athöfn fyrir hönd ráðherranefndarinnar, en öllu var sjónvarpað beint út á netið og gátu Samar alls staðar í heiminum fylgst með þessum sögulega atburði. Síðan var sameiginlegur hádegisverður en klukkan 13.30 hófst fundur menntamálaráðherranna. Þar var sérstaklega rætt um tungumál og stöðu þeirra að ósk okkar Íslendinga. Rögvaldur Ólafsson, dósent við Háskóla Íslands, flutti erindi um tungutækni og hvernig það mál horfir við frá sjónarhóli Íslendinga. Var síðan skipst á skoðunum um málið og er ljóst, að menn nálgast það frá mismunandi sjónarhorni, því að eins og kunnugt er erum við Íslendingar eina þjóðin, sem fylgjum hreintungustefnu á Norðurlöndunum. Ráðherrunum þótti til dæmis fróðlegt að heyra um samning okkar við Microsoft og að við gætum gert kröfur um málfar við þýðingu á kerfisbúnaði fyrirtækisins. Fundir menntamálaráðherranna eru að þróast á þann veg, að þar fara fram mun meiri upplýsingaskipti en áður og er mjög gagnlegt að bera saman bækur á þennan hátt, því að menntakerfin eru sífellt að verða alþjóðlegri og standa ekki undir nafni nema þau standist alþjóðlegar kröfur. Flaug heim með kvöldvélinni. Allt stóð eins og stafur á bók hjá Flugleiðum í þessari ferð.