21.2.2016 20:20

Sunnudagur 21. 02. 16

Samtal mitt á ÍNN við Áslaugu Guðrúnardóttur um mínimalískan lífsstíl er komið á netið og má sjá það hér.

Ríkisstjórn Bretlands kom saman til fundar laugardaginn 20. febrúar til að ræða niðurstöðu leiðtogaráðs ESB frá því deginum áður um ný ESB-aðildarskilyrði Breta. Í fréttum var sagt að ekki síðan í Falklandaseyjastríðinu árið 1982 hefði ríkisstjórnin haldið fund á laugardegi. David Cameron forsætisráðherra er sáttur við niðurstöðu leiðtogaráðsins. Hann telur sig hafa náð góðum samningi og ætlar að mæla með áframhaldandi aðild Breta á grundvelli hans í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem hann hefur boðað 23. júní 2016.

Þar til í dag hafa andstæðingar ESB-aðildar Breta verið næsta forystulausir. Þetta breyttist hins vegar með því að Boris Johnson, borgarstjóri London,kynnti í dag ákvörðun sína um að snúast gegn niðurstöðu leiðtogaráðsins og berjast fyrir úrsögn úr ESB.

Johnson sagðist ekki ætla að taka þátt í umræðuþáttum til að deila við flokksbræður sína um málið þá mundi hann ekki heldur skipa sér á pall með þeim andstæðingum ESB-aðildar sem hann mæti lítils vegna annarra skoðana þeirra. Hins vegar er talið að hann taki þátt í fundum íhaldsmanna gegn ESB. Hann nái þar með til grasrótarinnar í flokknum og treysti með því stöðu sína í komandi flokksleiðtogakjöri gegn George Osborne fjármálaráðherra. Cameron dregur sig í hlé fyrir næstu þingkosningar.

Af 30 manns í ráðuneyti Camerons eru sjö andvígir ESB-aðild.