23.2.2016 17:20

Þriðjudagur 23. 02. 16

Í gær var sagt frá niðurstöðu skoðanakönnunar í Hollandi sem sýnir að 53% Hollendinga styðja að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild þeirra að ESB. Könnunin sýnir einnig að 44% mundu styðja framhald aðildar en 43% úrsögn úr ESB.

Í huga Brusselmanna er eitt að seinni tíma aðildarþjóð eins og Bretar vilji láta reyna á ESB-aðildina í þjóðaratkvæðagreiðslu, annað að ein af stofnþjóðunum, Hollendingar, vilji fá tækifæri til að skoða hug sinn til aðildar.

Í Brussel hafa menn auk þess ekki gleymt því að vorið 2005 felldu Hollendingar í þjóðaratkvæðagreiðslu tillögu að stjórnarskrá fyrir ESB. Leiddi höfnun Hollendinga og Frakka á tillögunni til þess að gengið var til að gera Lissabon-sáttmálann sem gekk skemur en stjórnarskrártillagan, þó svo langt að Bretar hafa samið sig frá ákvæðum hans um samrunaþróunina. Telur David Cameron það einna bitastæðast í samningi sínum og segir að í því felist ekki aðeins að innan ESB geti aðild verið stigbundin, ef þannig má orða það, heldur ólík að eðli, þar sem ríki stefni til ólíkra átta.

Hollendingar voru á sínum tíma í hópi þeirra sem mest töluðu um gildi þess að afsala sér fullveldi til yfirþjóðlegrar stofnunar í því skyni að efla fullveldið í reynd með samruna þess við fullveldi annarra þjóða. Raddir sem þessar eiga minni hljómgrunn nú en nokkru sinni vegna vitneskjunnar um lýðræðishallann svonefnda innan ESB og skort ESB-embættismannakerfisins á lögmæti. Undan þessu kerfi vilja Bretar einnig skjóta sér.

Hvernig sem þjóðaratkvæðagreiðslan fer í Bretlandi hefur ESB breyst með samningi Davids Camerons. Með því að koma á tvíátta samstarfi gamalla aðildarþjóða ESB munu Brusselmenn leggja enn meiri áherslu en áður á ákvæði í aðildarskilmálum yngri aðildarríkja um einsleitni og að þeim beri að virða allar samþykktir og sáttmála sem fyrir liggja við aðild þeirra. Skilyrðalausri aðild og aðlögun verður framfylgt af meiri þunga en áður gagnvart þeim sem enn hafa áhuga á aðild að sambandinu.