28.2.2016 16:00

Sunnudagur 28. 02. 16

Furðulegt uppgjör hófst meðal ráðamanna pírata mánudaginn 22. febrúar þegar Erna Ýr Öldudóttir, formaður framkvæmdaráðs Pírata, sagði á svonefndu Pírataspjalli „gjörsamlega óþolandi“ hvernig Birgitta Jónsdóttir, þingmaður pírata, hagaði sér með „sólóplay“ og óheiðarlega með rangri framsetningu á sannleikanum.

Á mbl.is birtust þriðjudaginn 23. febrúar viðbrögð Helga Hrafns Gunn­ars­sonar, þingmanns og varaþing­flokks­formanns pírata, sem taldi eðli­legt, aug­ljóst og sjálfstagt mál að klofn­ing­ur gæti orðið í flokkn­um. „Ég kýs að hafa ekki áhyggj­ur af því,“ sagði Helgi og bætti við um Birgittu:

„Mér finnst það skjóta skökku við að mann­eskja í valda­stöðu, sem í þokka­bót hef­ur op­in­ber­lega rægt aðra, þónokkuð oft og mikið, [...] upp­lifi sjálfa sig í fórn­ar­lambs­hlut­verki.“

Eftir þessa yfirlýsingu Helga Hrafns birti Birgitta opið bréf til pírata og sagði:

„Það er mér ljúft og skilt að biðja opinberlega afsökunar á því ef ég hef sært einhvern. Það var ekki ætlun mín en ég veit að ég get stundum verið hvatvís og þver.“

Nú hefur Helgi Hrafn skrifað mea culpa á Pírataspjallið:

„Ég sé núna að það hefði verið mun betra að ræða málið fyrst við Birgittu, en satt best að segja var á þeim tíma ekki tal­sam­band milli okk­ar, sem er eitt­hvað sem við höf­um reynt að laga síðan þá. Mér var gjör­sam­lega mis­boðið en ég sé núna að það rétt­læt­ir ekki að ganga fram með þeim hætti sem ég gerði þá. Því vil ég biðja Birgittu Jóns­dótt­ur inni­lega af­sök­un­ar á því.“

„Af­sök­un­ar­beiðnin mót­tek­in og samþykkt. Þakka þér fyr­ir Helgi minn,“ svar­ar Birgitta.

 „Ég hef líka stund­um farið óvar­lega með vald sjálf­ur og vil endi­lega að við höld­um þeirri umræðu áfram, en þá frek­ar í góðu rúmi þar sem við get­um tekið málið fyr­ir með sem minnstri hættu á deil­um,“ segir Helgi Hrafn.

Nú er spurning hvort píratar ráði yfir nógu „góðu rúmi“ til að unnt sé að leysa deilumálin. Greinilegt er að eftir hinar opinberu sættir vegna stóryrðanna er ætlunin að falla frá frekara uppgjöri fyrir opnum tjöldum. Helgi Hrafn líkti á einu stigi stöðu sinni innan þingflokks pírata við „ofbeldissamand“. Til að búa við slíkt samband er nauðsynlegt að tileinka sér undirgefni og meðvirkni.

Af lestri frétta verður ekki ráðið að Erna Ýr Öldudóttir hafi dregið ummæli sín um Birgittu til baka.