2.2.2016 15:15

Þriðjudagur 02. 02. 16

Stjórnmálaskýrendur segja einfalt að átta sig á sigri Teds Cruz í prófkjöri repúblíkana í Iowa: hann búi yfir snilligáfu sem skipuleggjandi. Nú breytast átökin í þriggja manna slag milli Cruz (45 ára), Donalds Trumps  (69 ára) og Marcs Rubios (44 ára).

Cruz fékk 27,7% atkvæða, Trump 24,3% og Rubio 23%. Takist þessum þremur að hrista alla aðra af sér eftir prófkjörið í New Hampshire þriðjudaginn 9. febrúar aukist sigurlíkur Rubios. Hann er maður ráðandi hefðarafla í flokknum, þeim er jafnvel enn verr við Cruz en Trump sem þau þó fyrirlíta.

Allur vindur virtist úr Trump mánudaginn 1. febrúar, fáir sóttu fundi sem hann hélt þann dag í Iowa og hann fipaðist þegar hann naut ekki sömu athygli og áður.

Cruz gengur til kosningabaráttunnar með meira fé í kosningasjóði sínum en aðrir í prófkjörinu og betur smurða kosningavél en keppinautarnir. Cruz hefur varið milljónum dollara til að greina áhrifahópa og leiðir til að virkja þá. Bar það góðan ávöxt í Iowa –  tengsl í grasrótinni máttu sín meira en dálæti fjölmiðla á Trump.

Langa sigurræðu sína í Iowa hóf Ted Cruz á þessum orðum:

„Í upphafi vil ég segja, dýrð sé drottni. Í kvöld sigraði grasrótin. Í kvöld sigruðu hugrakkir íhaldsmenn í Iowa og hvarvetna annars staðar meðal þessarar miklu þjóðar. Í kvöld hafa íbúar Iowa-ríkis talað. Þeir hafa sýnt að forsetaframbjóðandi repúblíkana verður ekki valinn af fjölmiðlum. Hann verður ekki valinn af ráðamönnum í Washington. Hann verður ekki valinn af hagsmunamiðlurum. Heldur verður hann valinn af hinu ótrúlega valdamikla afli, uppsprettu alls fullveldis meðal þjóðarinnar, okkur fólkinu sem myndar hana – Bandaríkjamönnum.“

Hann skírskotaði til slagorðs Ronalds Reagans Morning in America og sagði: Iowa has proclaimed to the world, morning is coming. Morning is coming.

Mjótt var á munum hjá demókrötum þar sem Hillary Clinton (68 ára) sigraði vinstrisinnan Bernie Sanders (74 ára) með 49.9% atkvæða gegn 49,6%. Sanders þakkar ungu fólki ótrúlega góðan árangur sinn, það hafi fengið nóg af hinum ráðandi öflum meðal demókrata.

Ted Cruz höfðaði mjög til Reagan-demókrata í ræðu sinni og sagði að með stuðningi þeirra og sameinuðum flokki repúblíkana að loknu flokksþingi mundi hann sigra forsetakosningarnar í nóvember. Cruz veit að Sanders dregur Clinton til vinstri og fælir þannig Reagan-demókratana í faðm repúblíkana.