9.3.2001

UT 2001 - setningarræða
UT2001
Borgarholtsskóla,
9. mars 2001.Við komum nú saman í þriðja sinn undir þessum merkjum á vegum menntamálaráðuneytisins til að ræða um upplýsingatækni í skólastarfi. Umfang ráðstefnu okkar núna sýnir best, hve mikil gróska er í þessum þætti íslensks skólastarfs. Alþjóðlegar samanburðarkannanir sýna einnig, að við erum í fremstu röð meðal þjóða við nýtingu hinnar nýju tækni við kennslu. Þessu forskoti eigum við að halda.

Menntamálaráðuneytið leggur áherslu á það af sinni hálfu að nýta ráðstefnuna núna til að kynna verkefnaáætlun sína um rafræna menntun fram til ársins 2003. Höfum við gefið henni heitið: Forskot til framtíðar. Lít ég á þessa áætlun, sem eðlilegt framhald stefnunnar, sem ég kynnti snemma árs 1996 undir heitinu: Í krafti upplýsinga.

Vil ég þakka öllum, sem hafa komið að því að framkvæma þessa stefnu síðustu fimm ár. Breytingarnar hafa orðið mjög miklar og í mörgu tilliti farið fram úr björtustu vonum.

Þegar við efndum til ráðstefnunnar UT99 gerðum við það í því skyni, að fá svar við þeirri spurningu, hvernig íslenska skólakerfið stæði andspænis upplýsingatækninni. Töldum við það best gert með því að kalla þá saman, sem væru að vinna að þróun upplýsingatækni í skólastarfi, gefa þeim kost á að bera saman bækur sínar og sýna afrakstur af vinnu sinni, um leið og tækifæri gæfist til að rýna inn í framtíðina.

Í setningarræðu minni þá lagði ég áherslu á tungutæknina, það er að tryggja stöðu íslenskunnar í heimi upplýsingatækninnar. Markvisst hefur verið unnið að því síðan og nú er sérstök verkefnisstjórn tekin til við að framkvæma stefnuna á þessu sviði með rúmar 100 milljónir króna til ráðstöfunar á þessu ári.

Á UT2000 lagði ég áherslu á fartölvuvæðingu framhaldsskólanna og við fengum sænskan skólameistara og nemanda til að kynna okkur, hvernig að henni hefur verið staðið í Svíþjóð. Nú í vetur er unnið að tilraunum á þessu sviði í þremur þróunarskólum og fleiri hafa riðið á vaðið. Hefur þessu nýmæli verið betur tekið en ég þorði að vona.

Á UT2001 kynni ég þá framtíðarsýn, að kostir Netsins verði nýttir sem upplýsingaveita fyrir allt skólastarf. Þar verði námsefni miðlað með markvissum hætti og samskiptum komið á milli nemenda, kennara, skólastjórnenda, foreldra, atvinnurekenda og allra, sem tengjast menntun. Í þessari sýn felst, að hefðbundnir kennsluhættir þróist yfir í það, sem kalla má dreifmenntun og nemendur stundi nám í dreifskólum.

Eins og við urðum að nota nýtt orð, tungutækni, árið 1999 til að lýsa markmiðum okkar, þurfum við ný orð núna, dreifmenntun, dreifkennslu og dreifskóla til að lýsa því, sem fyrir okkur vakir.

Dreifskóli er stofnun, sem krefst ekki nauðsynlega hefðbundinna bygginga, er ekki með fasta stundatöflu og þar eru kennarar og nemendur ekki alltaf samtímis á sama stað. Í þessum skóla er nemandinn miðpunktur og sækir nám sitt eftir ýmsum leiðum og úr ólíkum áttum. Í dreifskóla er ekki gerður greinarmunur á staðbundinni kennslu og fjarkennslu heldur samtvinnast þessir kennsluhættir í dreifkennslu, þar sem jöfnum höndum er notuð hefðbundin kennsla og þekkingu miðlað með notkun Netsins.

Ég hvet ykkur öll til að kynnast hinni metnaðarfullu áætlun menntamálaráðuneytisins á þessu sviði. Hún boðar mörg spennandi tækifæri auk þess sem þar er að finna ný tæki til að njóta sín betur við nám og kennslu.

Takist okkur að hrinda þessari áætlun í framkvæmd á næstu þremur árum, verða breytingarnar jafnvel meiri á þeim tíma en þær hafa orðið síðan við hófum að vinna saman í krafti upplýsinga fyrir fimm árum.

Góðir áheyrendur!

Við þurfum að leggja áherslu á góðan kennsluhugbúnað á netinu. Er ánægjulegt að sjá, hve víða er unnið að gerð hans af kennurum og nemendum. Einkaaðilar bjóða einnig í auknum mæli aðgang að slíkum búnaði og námsefni. Eigum við óhikað að leita víða fanga í þessu efni, þótt erfitt sé að gera kennsluhugbúnað einungis fyrir íslenskan markað vegna smæðar hans, auðveldar þróun forritunarbúnaðar þetta starf. Við verðum að sameina tæknilega og kennslufræðilega þekkingu til að ná sem bestum árangri.

Ég vil þakka öllum, sem hafa lagt okkur lið við að gera dagskrá ráðstefnunnar jafnfjölbreytta og raun ber vitni. Ég vil sérstaklega nefna Arnór Guðmundsson og Jónu Pálsdóttur starfsmenn í þróunar- og áætlanadeild menntamálaráðuneytisins. MENNT hefur staðið sérlega vel að framkvæmd ráðstefnunnar fyrir hönd ráðuneytisins. Ég vil einnig þakka Landssíma Íslands fyrir stuðning við gerð vefsíðu menntagáttarinnar, undirbúningshópi ráðstefnunnar og þeim fjölmörgu fyrirlesurum sem leggja sitt af mörkum. Sérstökum stuðningsaðilum ráðstefnunnar er einnig þakkað, en þeir eru Opin kerfi, Nýherji og Skýrr. Hér verða flutt um eitt hundrað fyrirlestrar. Er UT-ráðstefnan orðin ein viðamesta kynnig á upplýsingatækni hér á landi, sem sannar enn, hve skólakerfið er mikill vaxtarbroddur á þessu sviði.

Þá fagna ég því sérstaklega, að við fáum inni í þessum glæsilega nýja skóla. Borgarholtsskóli hefur á fáum árum áunnið sér traustan sess meðal framhaldsskólanna og skipað sér í fremstu röð á ýmsum sviðum. Færi ég skólameistara, kennurum og öðru starfsliði Borgarholtsskóla þakkir fyrir það lið sem við höfum fengið frá þeim við undirbúning UT2001 um leið og ég óska þeim og nemendum skólans góðs árangurs í framtíðinni.