24.2.2016 21:10

Miðvikudagur 24. 02. 16

 

Í dag ræddi ég við Pál Þórhallsson, formann stjórnarskrárnefndar, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum starf nefndarinnar, meginniðurstöður hennar og síðan efni tveggja af þremur greinum í tillögum hennar, það er um náttúruauðlindir og þjóðaratkvæðagreiðslur.

Tillögur nefndarinnar snerta mál sem hafa verið lengi til umræðu í tengslum við breytingar á stjórnarskránni.

Davíð Oddsson hreyfði því til dæmis fyrst fyrir um það bil aldarfjórðungi að rétt væri að skilgreina fiskveiðiauðlindina sem sameign þjóðarinnar í stjórnarskrá. Í ákvæðinu kallar nefndin þetta þjóðareign. Páll segir í samtali okkar að um það sé deilt lögfræðilega hvort yfirleitt sé unnt að skilgreina eitthvað sem þjóðareign miðað við núverandi hugmyndir um eignarrétt sem reistar eru á ákvæðum núgildandi stjórnarskrár. Hann svarar þessari gagnrýni á þann hátt að stjórnarskrárgjafinn hafi heimild til að skilgreina nýja tegund af eignarrétti: þjóðareign.

Tillögur nefndarinnar má nálgast á vefsíðu forsætisráðuneytisins og þar eru einnig leiðbeiningar um hvernig unnt er að koma athugasemdum vegna tillagnanna á framfæri til 8. mars. Nefndin tekur síðan endanlega afstöðu til málsins og sendir lokatillögu sína til forsætisráðherra sem síðan ræðir málið við aðra flokksleiðtoga. Málið verður ekki afgreitt frá þingi nema tveir þriðju þingmanna styðji það.

Hér skal engu spáð um örlög málsins. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra lýsti í morgun óánægju yfir því að í tillögum nefndarinnar væri ekki gert ráð fyrir frumkvæðis- eða dagskrárvaldi almennings með því að ákveðinn fjöldi fólks gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu eitthvert mál. Slíkt ákvæði er til dæmis nýtt í Hollandi og hefur leitt til þess að í apríl verður efnt vtil ráðgefandi atkvæðagreiðslu um hvort staðfesta eigi samning ESB við Úkraínu. Tillaga nefndarinnar felur í sér að 15% kjósenda, um 30.000 manns, geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög.

Haldi forsætisráðherra fast í sjónarmið sitt þegar málið verður rætt á vettvangi stjórnmálaleiðtoga eða krefst þess að nefndin taki skoðun sína til afgreiðslu að loknum umsagnarfresti kann það að sigla málinu í strand.

Jóhanna Sigurðardóttir beitti forsætisráðherravaldi sínu til að gera skipan stjórnlagaþings að skilyrði fyrir afgreiðslu stjórnarskrármálsins í stjórnartíð sinni. Þessi krafa varð til þess að ekki fékkst nein efnisleg niðurstaða. Hið eina sem Jóhanna náði fram var ákvæði um að á því kjörtímabili sem nú stendur megi breyta stjórnarskránni eftir annarri aðferð en að þing sé rofið og breytingin borin undir þing að nýju að loknum kosningum.