10.2.2016 22:15

Miðvikudagur 10. 02. 16

Nú er ég í fyrsta sinn í Flórída. Flugum með Icelandair í sneisafullri vél í gær til Orlando úr frostinu. Í dag er  sól og tæplega 20° C stiga hiti.´Í morgunsólinni þótti heimamönnum hins vegar óhjákvæmilegt að klæðast vetrarfötunum sínum. Fyrir okkur sem komum úr frostinu var hins vegar ánægjulegt að geta gengið léttklæddur utan dyra.

Næstu daga ferðumst við hér og ef til vill segi ég frá einhverju sem á dagana drífur. Mér var sagt fyrir brottför að ekki þýddi að vera hér án þess að leigja bíl og það gerði ég í dag. Kaus frekar að gera það í dagsbirtu en að aka í myrkri á algjörlega ókunnum slóðum við komuna í gærkvöldi. Kaus ég frekar að fikra mig áfram í umferðinni hér í björtu en næturmyrkri þótt umstangið væri nokkurt.

Áður en ég fór utan tók upp samtal við Stefán Baldursson leikstjóra sem sýnt ér á ÍNN nú í kvöld. Ræðum við þar meðal annars hina mögnuðu sýningu á Sporvagninum Girnd í uppfærslu Stefáns í Þjóðleikhúsinu.

Lesendum þess sem ég skrifa um öryggismál meðal annars í Morgunblaðið og á vardberg.is ætti ekki að koma á óvart að bandaríska varnarmálaráðuneytið vilji búa þannig um hnúta að nýjar kafbátaleitarvélar geti notað flugskýli fyrir slíkar vélar á Keflavíkurflugvelli.

Viðbrögðin eru misjöfn eins og til dæmis þessi hjá bloggaranum Gísla Baldvinssyni sem segir:

„Endurkoma bandaríska hersins nú hefur að mínu mati annan tilgang en skyndileg umhyggja fyrir íslensku öryggi. Hér er einu peði í stórveldaskákinni ýtt fram til að auka viðsjár og spennu. Spennu sem á upphaf við Krímskaga.“

Þetta er gamalkunnur tónn: allt sem NATO gerir er til þess fallið að auka viðsjár. Uppgjafartal af þessu tagi ýtir aðeins undir yfirgang Pútíns.

Föstudaginn 5. febrúar sl. ritaði ég grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni: Bandaríkjastjórn vill fjórfalda útgjöld til varnar Evrópu gegn Rússum. Nú er ljóst að endurnýjun á Keflavíkurflugvelli er hluti þess sem á að gera fyrir þetta fé. Greinina má lesa hér.