Bandaríkjastjórn vill fjórfalda útgjöld til varnar Evrópu gegn Rússum
Morgunblaðið 5. febrúar 2016
Harka gegn Lavrov
Ræða ráðherrans kemur ekki á óvart í ljósi harðnandi afstöðu í Washington í garð Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta og málsvara hans.
„Hr. Lavrov er alls ekki heimskur og hann skilur örugglega skuldbindingar Rússa samkvæmt samkomulaginu. Hvað segir það um lygar rússnesku utanríkisþjónustunnar og fyrirlitningu hennar á alþjóðaálitinu þegar utanríkisráðherrann segir eitthvað sem sanna má að sé rangt á innan við 30 sekúndum með leit á Google?“
Á þessum orðum lýkur grein sem Steven Pifer, stjórnandi afvopnunarmála hjá hugveitunni Brookings í Washingon, ritaði á dögunum á vefsíðu hennar til að benda á ósannindi Sergeis Lavrovs, utanríkisráðherra Rússa, um efni samkomulagsins sem Rússar gerðu í Búdapest í desember 1994 til að tryggja öryggi Úkraínu gegn því að ríkið afsalaði sér kjarnorkuvopnum.
Pifer bendir á að Rússar hafi brotið gegn flestum ákvæðum samkomulagsins sem var undirritað af forsetum Rússlands, Bandaríkjanna og Úkraínu auk forsætisráðherra Breta.
Þar er því meðal annars heitið að „virða sjálfstæði og fullveldi og núverandi landamæri Úkraínu“ og að beita ekki „hótun eða valdi gegn landsyfirráðarétti og stjórnmálalegu sjálfstæði Úkraínu“ fyrir utan að láta hjá líða „að beita efnahagslegri þvingun í eigin hagsmunaskyni og vega þannig að fullveldisrétti Úkraínu“ og veita aðstoð verði „Úkraína fyrir árás eða sé hótað með árás þar sem kjarnorkuvopnum sé beitt“.
Tilefni þess að Pifer birtir grein um þetta efni nú eru orð sem Lavrov lét falla á hefðbundum blaðamannafundi sínum í upphafi árs. Utanríkisráðherrann fór ekki aðeins með rangt mál varðandi Úkraínu heldur einnig örlög 13 ára rússneskrar stúlku í Berlín sem skrópaði í skólanum og hvarf að heiman í 30 stundir en spann síðan þá lygasögu að þrír arabar hefðu rænt sér og nauðgað.
Lavrov veittist að þýskum yfirvöldum þegar málið var enn í lögreglurannsókn og sagði meðal annars: „Við blöndum okkur ekki í innri mál annarra landa.“ Þessi ummæli urðu Berthold Kohler útgefanda Frankfurter Allgemeine Zeitung tilefni til að skrifa að þetta hljómaði eins og hver annar brandari en einnig:
„Hver getur þó enn hlegið að ósvífninni sem í þessari fullyrðingu felst? Ekki Úkraínumenn, ekki Georgíumenn, ekki Sýrlendingar, ekki Eystrasaltsþjóðirnar, ekki Pólverjar og ekki fjölmargar aðrar þjóðir. […]
Væri Þýskaland minna ríki í nágrenni Rússlands hlytu allar viðvörunarbjöllur í Berlín nú að hringja hátt, þá er ljóst að hér í landinu er „minnihluti“ sem Kremlverjar geta virkjað með áróðursvél sinni. Ekki er unnt með skýrari hætti en þessum að sjá hvernig rússnesk stjórnvöld beita undirróðursstefnu sinni gagnvart Þýskalandi og ESB.“
Gjörbreytt hættumat
Enska orðið „revanchism“ er íslenskað í orðabanka Íslenskrar málstöðvar á þennan veg: hefndarstefna, landheimtustefna – hefndarstefna eins ríkis gagnvart öðru.
Fyrir fáeinum dögum kynnti yfirmaður bandaríska hersins í Evrópu, Philip Breedlove hershöfðingi, stefnu Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna (USEUCOM). Skjalið sem geymir stefnuna hefst á þessum orðum:
„Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa evrópskir bandamenn og samstarfsaðilar þeirra unnið með Bandaríkjamönnum um heim allan að því að stuðla að öryggi og stöðugleika, Evrópa skiptir enn sem fyrr miklu fyrir þjóðarhagsmuni Bandaríkjanna. Um þessar mundir stendur Evrópuherstjórn Bandaríkjanna (USEUCOM) frammi fyrir lang neikvæðustu breytingu á evrópskum öryggismálum frá því að kalda stríðinu lauk. Rússar haldnir hefndarhyggju (e. revanchist Russia), fjölda fólksflutningar frá öðrum svæðum, erlendir hryðjuverka-vígamenn í Evrópu, tölvuárásir, eftirstöðvar hnattrænnar fjármálakreppu og lítið fé til varnarmála, allt vegur þetta að öryggi Evrópu, skapar hættu fyrir Bandaríkin sjálf og er ógn við hnattrænt öryggi og stöðugleika.“
Hershöfðinginn, sem einnig er yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO, lýsir á níu blaðsíðum hver séu viðbrögð Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna við þessari dökku stöðu. Hann tekur mið af stefnu Bandaríkjastjórnar og áætlunum NATO um varnir Evrópu. Telur hann víða þörf á umbótum til að laga þessa stefnu að hinum nýja, tveggja ára gamla veruleika. Fjórföldun á útgjöldum Bandaríkjanna í því skyni mun skipta miklu.
Leiðin yfir N-Atlantshaf
Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna, sagði á Varðbergsfundi í nóvember 2015 að viðhorf Bandaríkjastjórnar til varnarhagsmuna á Íslandi birtust best í því hvaða fulltrúar hennar kæmu hingað til lands. Einn þeirra einmitt Breedlove hershöfðingi. Hann var hér í september 2014.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði þá mikilvægt að yfirhershöfðingi NATO heimsækti Ísland reglulega til að kynnast aðstæðum og eiga samráð við hérlend stjórnvöld. Á fundi ráðherrans og hershöfðingjans var rætt um reglubundna loftrýmisgæslu bandalagsins á Íslandi, tækifæri til æfinga og rekstur íslenska loftvarnarkerfisins, sem væri mikilvægur þáttur í framlagi Íslands til sameiginlegra varna bandalagsríkja.
Að Bandaríkjamenn auki hernaðarlega viðveru sína í Evrópu, flytji þangað fleiri hergögn og menn, beinir athygli þeirra jafnframt að lífæðinni yfir N-Atlantshaf og nauðsyn þess að tryggja öryggi á henni. Þar skiptir hnattstaða Íslands miklu eins og jafnan áður.