6.2.2016 14:00

Laugardagur 06. 02. 16

Nú er 21 ár liðið frá því að þessi síða fór inn á Internetið. Rétt er að minnast þess því að núna um helgina er UT-messan svonefnda í Hörpu í Reykjavík – hún er sögð haldin í fimmta sinn. Fyrst hafi verið efnt til hennar 2011.

Ég tel að rekja eigi rætur þessarar „messu“ aftur til ársins 1999 þegar menntamálaráðuneytið stóð í fyrsta sinn fyrir ráðstefnu sem nefnd var UT99, um fyrstu þrjú ár þess starfs má meðal annars lesa hér 

Á vefsíðunni ruv.is er föstudaginn 5. Febrúar fjallað um UT-messuna 2016 og þar segir í upphafi:

„Í þá kvartöld sem netið hefur verið við lýði, hefur það einkum haft það hlutverk að tengja saman tölvur og manneskjurnar sem nota þær. Á því er að verða breyting. Internetið er í útrás og mun innan skamms tengja saman mun fleiri hluti en menn. Þetta segir Bas Boorsma, hann starfar hjá alþjóðalega tæknifyrirtækinu Cisco og er sérfræðingur í fyrirbæri sem nefnt hefur verið Internet allra hluta. Fyrirbærinu fylgja bæði sóknarfæri og hættur.

Internet allra hluta er meginviðfangsefni UT-messunnar sem nú stendur yfir í Hörpu. Boorsma fullyrðir að Internet allra hluta sé bylting, glænýtt lag sem bætist við það Internet sem við þekkjum í dag. Á hverri klukkustund bætast 100 þúsund nýjir hlutir við þetta internet hlutanna, ekki bara prentarar og tölvur heldur ísskápar, útidyr, ljósastaurar, skólpræsikerfi og bílastæði.“

Ég staldraði við orðið kvartöld, það er 25 ár, og fékk enn einu sinni staðfestingu á að líklega eru fáar vefsíður einstaklinga sem eiga óslitinn þráð allt aftur til upphafsára þessarar samskiptabyltingar.

Að unnt sé að rekja þennan þráð hér á síðunni þakka ég samskiptum mínum við frábæra tæknimenn sem hafa jafnan kunnað að nýta sér þróunina og búið síðunni þá umgjörð að allt efnið er enn aðgengilegt. Meirihluta tímans frá 1995 hef ég verið í umsjá Hugsmiðjunnar, framúrskarandi fyrirtækis á sínu sviði og jafnframt haft fjárhagslega burði til að greiða grunnkostnaðinn sem hlýst af tæknilegri hlið úthaldsins.

Af tilvitnuninni hér að ofan má ráða að nýtt skeið í notkun internetsins sé hafið. Leiði það til jafnmikilla breytinga í samskiptum og lífi manna og orðið hafa undanfarin 25 ár er vissulega erfitt að sjá framtíðina fyrir sér.