27.2.2016 17:50

Laugardagur 27. 02. 16

Þar sem menn koma saman ber ferðamannafjölgunin oft á góma en ekki síður byggingar hótela og fjölgun gististaða af ýmsu tagi. Það virðist ekkert lát á hugmyndaflugi og fjármunum þegar að þeim þáttum ferðaþjónustunnar kemur. Hitt hefur alloft lengi verið látið sitja á hakanum að setja lágmarkskröfur um aðstöðu fyrir ferðamenn utan hótel- og veitingastaðanna. Þegar að þeim þætti kemur er ekkert sambærilegt átak til uppbyggingar gert og við fjölgun gististaða.

Engu er líkara en þeir sem mestan hag hafa af ferðaþjónustunni líti á það sem samfélagslegt vandamál að gestunum sé ekki búið öryggi í samræmi við hættur sem að kunna að steðja. Eru það ekki einkum þjónustuaðilarnir og sveitarfélög þeirra sem þarna eiga að vera í fararbroddi? Hvernig má það vera að fólk sem aldrei hefur kynnst náttúruöflunum fer ferða sinna án nauðsynlegrar aðgæslu við Jökulsárlón þar sem einkaaðilar hagnast á komu þeirra?

Þeir sem fá leyfi til að selja aðgang að gistirými verða að uppfylla kröfur heilbrigðiseftirlits og brunavarna. Þeir greiða árlegt gjald fyrir leyfið og fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði hækka sé það nýtt til útleigu til dæmi á Airbnb. Eru engar sambærilegar öryggiskröfur gerðar til þeirra sem eiga land sem nýtur vinsælda ferðamanna? Ber þessum landeigendum ekki skylda til að gera nauðsynlegar öryggisráðstafanir á eigin kostnað?

Raunar er óskiljanlegt hve rík þörf er til að breyta viðfangsefnum sem í raun eru á ábyrgð landeigenda eða skipulagsyfirvalda á viðkomandi stað í vanda sem ríkisvaldinu beri að leysa. Hvar verða menn varir við aðgerðir til að draga skýrar línur og marka ábyrgð hvers og eins? Ábyrgðin á eigin öryggi hvílir auðvitað fyrst og síðast á einstaklingnum sjálfum. Sé hann við aðstæður sem hann hefur aldrei kynnst ber að skýra þær sem best fyrir honum. Þar skiptir þekking staðkunnugra mestu og geri þeir ráðstafanir til að laða til sín ferðafólk ber þeim skylda til að kynna því hættur sem kunna að felast í komu á viðkomandi stað og standa að kynningu og gæslu á viðunandi hátt.

Ríkisvaldið á að hafa puttana sem minnst í ferðaþjónustunni og draga sig út úr henni til dæmis með einkavæðingu á starfsemi Isavia á Keflavíkurflugvelli. Hver bjóst við því að félag sem stofnað var til að halda utan um flugumferðarstjórn og öryggisreglur yrði einn helsti verslanarekandi og byggingaraðili í landinu?