1.2.2016 18:40

Mánudagur 01. 02. 16

Meirihluti landsdóms komst að þeirri niðurstöðu að réttmætt væri að sakfella Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, án refsingar fyrir að ekki skyldi fært í fundargerðir ríkisstjórnarinnar að háski „vofði yfir bankakerfinu og þar með heill ríkisins […] með þeim afleiðingum að ekki var um þau málefni fjallað á vettvangi ríkisstjórnarinnar,“ segir í dóminum.

Þessi furðulega niðurstaða kemur í hugann þegar rætt er um embættisfærslu í fjármálaráðuneytinu undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar sem stóð „með sorg í hjarta“ að ákærunni gegn Geir H. Haarde.

Eitt af umræðuefnunum um stjórnarhætti Steingríms J. er að fjármálaráðuneytið hafi ekki afhent alþingi öll gögn sem varða samninga stjórnvalda við kröfuhafa föllnu bankanna á árinu 2009. Ráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem segir meðal annars:

„Bent hefur verið á að tvær fundargerðir af fundum stýrinefndar um samninga við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna liggi ekki fyrir.  Það er rétt, en eins og áður hefur komið fram hafa þessar fundargerðir ekki fundist. Eftir ítrekaða leit er það niðurstaða ráðuneytisins að skýringin sé sú að láðst hafi að halda fundargerðirnar í fjarveru ritara og þær því ekki til, sem er vissulega miður.“

Hvernig ætli meirihluti landsdóms hefði tekið á málinu sem taldist brot á 17. gr. stjórnarskrárinnar ef dómurum hefði verið bent á að ekkert stæði um háskann sem vofði yfir bankakerfinu af því að það hefði bara vantað ritara á ríkisstjórnarfund?

Áður en bankarnir hrundu snerist málið um að ríkisstjórnin hefði átt að halda fund og bóka að sumir teldu að mikill háski steðjaði að bankakerfinu en aðrir teldu allar hrakspár orðum auknar.

Árið 2009 var allt annað uppi á teningnum þegar stjórnvöld fjölluðu um bankana. Allir vissu að þeir voru fallnir og sumir sáu tækifæri til að hagnast felast í leifum þeirra – um það snerust fundirnir í fjármálaráðherratíð Steingríms J. og allt pukur hans. Hann einkavæddi bankana með leynd, vildi þóknast kröfuhöfunum eins og Hollendingum og Bretum í Icesave-málinu.