17.2.2016 23:00

Miðvikudagur 17. 02. 16


Áður en ég hélt utan tók ég upp viðtal á ÍNN við Áslaugu Guðrúnardóttur sem sendi nýlega frá sér bók um mímimalískan lífsstíl. Þátturinn var frumsýndur í kvöld en hann má sjá þar til kl. 18.00 á morgun auk þess sem hann er alltaf aðgengilegur á tímaflakkinu og síðar á inntv.is.


Um klukkan 08.00 í morgun lagði skipið Grand Celebration að landi í Freeport á Bahama-eyjum. Við fórum í skoðunarferð um bæinn og síðan röltum við um markað sem rekinn er fyrir gesti af skemmtiferðaskipum og aðra ferðamenn. Ferðaþjónusta er aðalatvinnugreinin á Bahama-eyjum.

Í skoðunarferðinni sáum við hverfi sem benda til fátæktar eða frumstæðra lifnaðarhátta. Áríð 2004 fór eyjan Grand Bahamas  mjög illa í fellibyl, til dæmis gjöreyðilagðist flugvöllurinn við Freeport.

Forvitnilegt var að koma hingað. Eyjaklasinn fékk sjálfstæði frá Bretum um miðjan áttunda áratuginn. Þar er vinstri handar umferð eins og í mörgum fyrrverandi nýlendum Breta. 

Skipið siglir til baka til Palm Beach í kvöld. Margir farþeganna gista nokkrar nætur í strandhóteli í Freeport en ströndin virtist falleg og Atlantshafið einstaklega blátt. Mér finnst ólíklegt að leið mín liggi aftur hingað.