14.2.2016 23:55

Sunnudagur 14. 02. 16

Að kynnast mannlífinu hér í Flórída frá sjónarhóli ferðasölufólks er svo sérkennilegt að lýsing á því með fáum orðum verður aðeins yfirborðskennd. Augljóst er að þeir sem starfa hér að ferðaþjónustu telja Flórída mestu ferðamiðstöð veraldar. Hingað streymir fólk milljónum saman allan ársins hring.
Ég sagði í fyrri færslu að ferðasölumaður hefði upplýst mig um að 55 milljónir manna kæmu til Orlando á ári. Í dag sagði annar a fjöldinn væri 62 milljónir á ári til Orlando sem væri mesta miðstöð ferðamennsku í heiminum.
Tölur um árlegan vöxt er ævintýranlegur og hvarvetna keppast menn við að setja ferðalögin í sem girnilegasta búning til að varan sé seljanlegri. Samkeppni á þessum markaði er ofurhörð.
Allt sem við augum blasir snýst um þjónustu eða frístundaiðkun af einhverju tagi. Þar sem við erum núna, Fort Lauderdale, eru til dæmis outletin svonefndu svo risavaxin að fá eru sambærileg annars staðar.
Þá eru hér íbúðahverfi þar sem ákveðið hefur verið að leyfa ekki verslanir Walmart af því að íbúarnir kæra sig ekki um að viðskiptavinir Walmart leggi leið sína í hverfið sitt, það sé fyrir þá sem vilja versla þar sem verðið er hærra.