22.2.2016 20:20

Mánudagur 22. 02. 16

 

David Cameron, forsætisráðherra Breta, kynnti niðurstöðu viðræðna sinna við ESB á fundi breska þingsins í dag. Í frásögnum breskra fjölmiðla af umræðunum er lagt út af því sem túlka mátti sem gagnrýni hans á Boris Johnson, flokksbróður hans og borgarstjóra í London, sem snerist í gær gegn ESB-stefnu Camerons og sagðist ætla að greiða atkvæði með úrsögn Breta úr ESB.

Johnson segir að það styrki stöðu Breta gagnvart ESB að segja nei, hið eina sem Brusselmenn skilji sé afdráttarlaus afstaða þjóðar. Það sé áfram nauðsynlegt að ræða við ESB þrátt fyrir úrsögn og með nei-i styrkist samningsstaðan.  Þessu svaraði Cameron með  því að segja að það þætti undarlegt að hvetja til hjónaskilnaðar með þeim orðum að sambandið yrði betra með því að hefja það að nýju.

Í lok framsöguræðu sinnar áréttaði Cameron að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í næstu þingkosningum. Afstaða sín til  ESB mótaðist því ekki af eigin framadraumum. Þarna skaut hann einnig á Johnson sem er sakaður um að láta eigin pólitískan metnað ráða afstöðu sinni frekar en hag Bretlands. Hann telji að andstaða gegn ESB styrki sig í komandi leiðtogakjöri í Íhaldsflokknum.

Einn stjórnmálaskýrandi sagði að ástandið meðal æðstu manna Íhaldsflokksins minnti nú á spennuna milli Tonys Blairs og Gordons Browns í Verkamannaflokknum áður en Blair hætti sem leiðtogi flokksins og forsætisráðherra.

Það verður spennandi að fylgjast með sveiflunum í bresku umræðunum fram til 23. júní þegar greidd verða atkvæði um ESB-aðildina. Þar verður unnt að kynnast aðferðum þaulæfðra stjórnmálamanna í átökum sem um mál sem klýfur flokka þar ekki síður en hér á landi og annars staðar.