18.2.2016
23:55
Föstudagur 19. 02. 16
Fréttir í dag um tillögur til breytinga á stjórnarskránni sannfæra mig endanlega um að tafir á að ná samkomulagi um það sem þar er að ræða megi rekja til þvermóðskulegrar kröfu Jóhönnu Sigurðardóttur um að breyta yrði allri stjórnarskránni og kalla saman sérstakt stjórnlagaþing til þess.
Jóhanna hóf þessa vitlausu vegferð strax eftir að hún varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009 og naut þá stuðnings Framsóknarflokksins enda var Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður flokksins, formaður stjórnarskrárnefndar. Annnarri eins meðferð á máli sem ekki varð afgreitt án samkomulags allra hef ég aldrei kynnst.
Ofríkið og frekjan var liður í að sverta Sjálfstæðisflokkinn á alla lund. Allt rann þetta út i sandinn hjá Jóhönnu eins og önnur mál sem henni voru heilög sem forsætisráherra.
Samfylkingin sýpur nú seyðið af þessum óstjórnartíma eins og fráfarandi formaður hennar, Árni Páll Árnason, hefur lýst í uppgjörsbréfi við lok formennsku sinnar. Katrín Júlíusdóttir varaformaður segir skilið við stjórnmálin en hún hefur verið þátttakandi í hildarleiknum sem leiðir til falls flokksins.