26.2.2016 18:45

Föstudagur 26. 02. 16

Að kvöldi fimmtudags 25. febrúar hafði ég framsögu á fundi í Valhöll um Schengen og flóttamannavandann en Viðar Guðjohnsen lyfjafræðingur stjórnaði fundinum.  Skoðun mín á Schengen-samstarfinu er í stuttu máli sú að það sé haft fyrir rangri sök hér á landi þegar menn kenna því til dæmis um straum hælisleitenda til landsins. Vandinn á því sviði er að Schengen-reglur eru ekki notaðar til að afgreiða mál á þann hátt sem ber – það er vísa fólki úr landi sem sækir hér um hæli í trássi við reglurnar. Líklega ná reglurnar til svo til allra ef ekki allra hælisleitenda hér því að þeir hafa haft viðdvöl í öðru Schengen-ríki áður en þeir koma hingað til lands. Umsókn þeirra ber að afgreiða í fyrsta landi þeirra á Schengen-svæðinu.

Hugmyndaflugið sem menn hafa til að fara í kringum þessa reglu er takmarkalaust. Virðist þó nægja að lögfræðingi hælisleitandans takist einum eða með aðstoð almannatengils að hafa samband við fréttastofu ríkisútvarpsins til að setja af stað ferli sem oft lýkur á þann veg af mannúðarsjónarmiðum eða öðrum mjög matskenndum ástæðum er sagt að lög og reglur Schengen gildi ekki um viðkomandi einstakling – síðan er skuldinni gjarnan skellt á Schengen-reglurnar!

Í dag birti útlendingastofnun svar sitt til umboðsmanns alþingis við spurningum hans um afgreiðslu stofnunarinnar á óskum um dvalarleyfi af heilsufarsástæðum. Spurningarnar sendi umboðsmaður vegna umræðna um ákvörðun útlendingastofnunar um að vísa tveimur albönskum fjölskyldum úr landi en þar á meðal voru veik börn. Talsmenn þeirra töldu að lífi barnanna væri stefnt í voða með brottvísuninni. Fór svo að alþingi ógilti hana með þeim óvenjulega gjörningi að veita fjölskyldunum íslenskan ríkisborgararétt. Í því efni hafði sjálft þingið Schengen lög og reglur að engu.

Fyrirspurn umboðsmanns alþingis var vatn á myllu þeirra sem létu eins og illa væri staðið að afgreiðslu mála af því tagi sem um er að ræða í henni. Þá ber allur þessi sérkennilegi málarekstur svip af því að heilbrigðiskerfið í Albaníu standi ekki undir nafni. Virtust úrslitarökin í málinu snúast um illa meðferð á veikum börnum í Albaníu.

Nýlega átti ég kost á að ræða við mann sem dvaldist í nokkur misseri í Albaníu og sagði honum frá þessu máli og að síst af öllu hefði dregið úr hælisumsóknum frá Albaníu eftir afgreiðslu þess. Hann lýsti undrun yfir gangi málsins og sagði fráleitt að halda því fram að ekki væru góðar sjúkrastofnanir í Albaníu. Teldu Albanir að þeim byðist ríkisborgararéttur og hágæða heilbrigðisþjónusta kæmu þeir til Íslands myndi umsóknum þeirra hér aðeins fjölga. Ekki verður Schengen kennt um það heldur alþingi.