Föstudagur 05. 02. 16
Umrótið innan Samfylkingarinnar nær nýjum hæðum eftir því sem meira er rætt um það. Í dag segir Katrín Júlíusdóttir, varaformaður flokksins, í Fréttablaðinu að hún voni að flokkurinn þurrkist ekki út, þar svarar hún spá þingmanns flokksins.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, dró hinn 2. febrúar í efa að Samfylkingin lifði til haustsins. Vildi hún að landsfundi flokksins, og þar með formannskjöri, yrði flýtt og fundurinn haldinn í maí en ekki á næsta ári. Hún sagði á Facebook 2. febrúar:
„Eftir Gallupkönnunina í gær [Samfylkingin með 9,2% fylgi] hlýtur öllum að vera ljóst að við svo búið má ekki standa lengur. Flokkurinn mun ekki lifa til haustsins með þessu áframhaldi. Ég legg til að landsfundi og þar með formannskjöri verði flýtt fram í maí. Staðan er óþolandi fyrir alla sem málið varðar og nú er mál að linni.“
Á mbl.is mátti lesa fimmtudaginn 4. febrúar:
„Lög Samfylkingarinnar gera það að verkum að ekki er mögulegt að flýta landsfundi flokksins og halda hann í vor eins og kallað hefur verið eftir. Ekki er heldur mögulegt að halda reglulegan landsfund á þessu ári af þeim sökum. Þetta segir Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar.“
Sama dag fimmtudaginn 4. febrúar birtu ungir jafnarmenn ályktun þar sem sagði:
„Ungir jafnaðarmenn taka undir þá kröfu sem upp er komin að formannskjör í Samfylkingunni - jafnaðarmannaflokki Íslands fari fram strax nú í vor, ekki síðar en í maí. Horfast verður í augu við að skilaboð Samfylkingarinnar eru ekki að ná eyrum kjósenda og leita þarf allra leiða til að byggja upp trúverðugleika flokksins á ný.“
Þessar misvísandi yfirlýsingar um hvort unnt sé að skipta um formann með hraði sýna ekki annað en hve upplausnin í liðinu er algjör. Þingmaður eða forráðamenn ungra jafnaðarmanna gefa sér ekki einu sinni tíma til að kynna sér lög flokksins í óðagotinu.
Árni Páll Árnason flokksformaður sýnist ekki heldur alveg með á nótunum. Hann hefur látið eins og unnt sé að flýta landsfundi til að kjósa formann. Veit hann ekki betur eða er hann bara að gabba grasrótina?
Kristján Guy Burgess tók við framkvæmdastjórn flokksins 1. nóvember 2015. Fylgið hefur minnkað jafnt og þétt síðan, ekkert hefur heyrst frá honum hvort og hvenær er unnt að halda landsfund. Kannski er bara best að jarða flokkinn utan fundar?