Sunnudagur 07. 02. 16
Á mbl.is segir sunnudaginn 7. febrúar að Birgitta Jónsdóttir, þingmaður pírata, hafi þann dag rætt við Björn Inga Hrafnsson í sjónvarpsþættinum Eyjunni. Þar hafi hún boðað framhald á þátttöku í stjórnmálum.
Haft er eftir Birgittu á mbl.is:
„Við höfum alltaf haft það þannig hjá pírötum að það er í lagi skipta um skoðun. Í jólafríinu langaði mig ekki að halda áfram og sonur minn langþráir að ég hafi meiri tíma fyrir hann. Hins vegar höfum við ekki marga reynslubolta í Pírötum sem vita hvernig stjórnmál virka.
Stjórnmál eru yfirleitt mun ljótari en menn halda, þetta er mikil valdabarátta á milli flokka, og á milli þeirra sem vilja stjórna flokkunum. Ég steig fram þegar flokkurinn komst upp í 20% og lagði til ákveðna vegferð. Fylgið hefur haldið áfram að aukast og mér finnst pínulítið óábyrgt að fara frá borði þá. Ef við leggjum til stutt kjörtímabil þá finnst mér ekki mikill munur á að sitja á þingi í átta eða tíu ár.
Ég hef prófað það að vera í litlum þingflokki og það er flókið. En það er mikilvægt að halda utan um stóran flokk, og hjálpa fólki að komast inn í þetta. Þeir í hinum flokkunum eru ekki mikið fyrir að kenna manni hlutina.
Þetta er ekki eins og að koma á nýjan vinnustað, heldur er maður strax kominn í valdabaráttu. Það er kannski rangt hjá mér, en mér finnst svolítið óábyrgt að leggja fram tillögur til að koma í veg fyrir að fólk verði svikið eftir kosningar. Við viljum að það sé þannig að það sé ákveðið fyrirfram hvernig stjórnarsáttmálinn verður og jafnvel vil ég sjá fjárlögin líka liggja fyrir.
Ég sé ekki fyrir mér kosningabandalag heldur bindandi samkomulag með þeim sem vilja fara í vegferð með okkur. Við leggjum ekki upp með að fella ríkisstjórnina. Þeir sem eru nú við völd eru að sjá um það sjálfir.
Ef fólk vill ekki vinna að þessu með okkur, þá þætti mér óráð að fara að gera það sem allir flokkar gera alltaf. Þá myndum við frekar vilja vera í minnihluta eða vera í minnihlutastjórn.“
Af þessu má ráða að Birgitta sér sjálfa sig sem kennara í stórum þingflokki, kannski í 2 ár, eftir kosningar þar sem ekki verði um kosningabandalag að ræða heldur verði bindandi málefnasamkomulag, helst um efni fjárlaga. Hver hoppar um borð í pírataskipið?