11.3.2008 18:08

Þriðjudagur, 11. 03. 08.

Flaug frá Kaupmannahöfn um Prag til Lubljana í Slóveníu og ók þaðan til Bled til ráðherraráðstefnu Schengen-ríkjanna um þróun landamæravörslu.

Það gafst tími til að aka umhverfis hið fagra vatn við Bled og einnig sáust tignarleg fjöllin í suðri og norðri, það er í áttina að Ítalíu og Austurríki - það var raki í frekar köldu loftinu.

Leiðsögumaðurinn spurði hvaðan ég væri og sagðist þá undrandi á, hve margir íslendingar væru þarna á ferð. Hann hefði farið með hópa Íslendinga í gönguferðir í Ölpunum og auk þess tekið á móti fólki frá Heimsferðum.