27.3.2008 3:16

Fimmtudagur, 27. 03. 08.

Flugum í morgun frá Vina del Mar flotaflugvellinum til Talcahuano, sunnar í Chile, þar ASMAR er með stærstu skipasmíðastöð sina.

Klukkan 12.30 var lagður kjölur að nýju varðskipi okkar Íslendinga í stöðinni við hátíðlega athöfn, þar sem þjóðsöngvar landanna voru leiknir og fluttar voru ræður.

Síðdegis flugum við aftur til Vina del Mar.

Í stöðinni sáum við m.a. togara og þegar betur var að gáð, mátti sjá nafnið Bessi á honum. Skipið er nú í eigu Chilemanna. Þá voru þarna við bryggju tveir stórir verksmiðjutogarar. Þeir urðu eldi að bráð við veiðar í Kyrrahafi og liðu aðeins nokkrar vikur á milli atvikanna, án þess að upptök eldsins séu ljós. Samherji á annan skipskrokkinn og leitar samninga við ASMAR um endursmíði skipsins. Þarna var verið að leggja lokahönd á færeyskan verksmiðjutogara. Ísfélagið í Vestmannaeyjym hefur samið við ASMAR um smíði á tveimur verksmiðjutogurum.

Íslendingar hafa verulegra hagmsuna að gæta í samskiptum við ASMAR.

Athöfnin í dag vakti verulega athygli heimamanna, ef marka má hana af áhuga frétta- og blaðamanna.

Í stuttri ræðu minntist ég þess, að fyrir okkur Íslendinga skipti smíði hins nýja varðskips mjög miklu - við hefðum ekki eignast nýtt varðskip í rúm þrjátíu ár.

Ávallt er álitaefni, hvort verja eigi fé og tíma í langferðir af þessu tagi. Í þessu tilviki hefur hvoru tveggja verið vel varið, enda um skýra þjóðarhagsmuni að ræði og einstakt tækifæri til að treysta tengsl við fjarlæga þjóð, sem tekst að mörgu leyti á við svipuð viðfangsefni og við Íslendingar, þegar litið er til hagsmuna á hafinu.