Laugardagur, 29. 03. 08.
Nú er kominn tími til að taka saman föggur sínar hér í Chile og búast til heimferðar. Flugið verður langt, tæpir 14 tímar, til Parísar. Það hefur verið ánægjuleg reynsla að kynnast landi og þjóð fyrir utan að fylgjast með framvindu mála við smíði nýja varðskipsins okkar. Við slíka stórframkvæmd er í mörg horn að líta og stilla verður saman alla strengi á skipulegan hátt, svo að ekkert fari úrskeiðis.
Ég sé í Morgunblaðinu, að Böðvar Jónsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, sér ný sóknarfæri með breytingum á yfirstjórn tollgæslu á Keflavíkurflugvelli og flutningi hennar undir fjármálaráðuneytið, þar sem hún á heima miðað við verkaskiptingu innan stjórnarráðsins. Ragnhildur Hjaltadóttiir, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytis, telur engin vandkvæði við að taka við öryggisgæslunni á Keflavíkurflugvelli.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri sagði á ruv.is, að hann teldi breytingar á embætti lögreglustjórans til þess fallnar að styrkja löggæslu á Suðurnesjum.
Meðal þeirra, sem fara með yfirstjórn þessara mikilvægu málaflokka, er þannig einhugur um, að með breytingum á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum sé ekki vegið að þeirri starfsemi, sem um er að ræða, enda hefðu ákvarðanir um skipulagsbreytingar aldrei verið teknar með það í huga.
Fyrir ákvörðunina um skipulagsbreytingarnar, snerust umræður um, hve mörgum starfsmönnum ætti að segja upp við embættið til að rekstur þess yrði innan fjárlaga. Tillögur um uppsagnir lágu fyrir frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum, enda hafði ráðuneytið verið í samráðsferli við embættið um leiðir til að ná tökum á fjármálastjórn þess. Það stefndi í 200 milljón króna halla hjá embættinu umfram fjárheimildir.