2.3.2008 21:47

Sunnudagur, 02. 03. 08.

Endirinn á danska sjónvarpsþættinum Forbrydelsen - Glæpnum - var ekki eins góður og aðdragandi hans. Kannski er það vegna endalokanna, sem þátturinn hefur ekki unnið til alþjóðlegra verðlauna eins og Danir væntu. Segir sá, sem ekki hefur hugmynd um, hvað dómnefndir leggja til grundvallar við ákvarðanir af þessum toga. Hinu má ekki heldur gleyma að dómnefndum getur skeikað á þessu sviði eins og öðrum.

Sérkennilegt var að hlusta á fréttir í dag um mestu snjókomu í Vestmannaeyjum síðan á sjöunda áratugnum á sama tíma og úrkomulaust var rétt norðan við Eyjarnar, í Fljótshlíðinni. Að vísu var skafrenningur þar og fauk svo í heimreiðina, að ég festi mig. Komu tveir góðir nágrannar mér til hjálpar, eftir að ég hafði árangurslaust reynt að moka bílinn lausan.

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, lýsir hér heimsókn sinni á sveitasetur George Bush, forseta Bandaríkjanna.

Eftirskrift: Glöggur lesandi benti mér á að þáttaröðin Forbrydelsen hefði verið gerð í tveimur hlutum 1 til 10 (2006) og 11 til 20 (2007), Aðeins fyrri hlutinn hafi verið sendur í keppni. Leikmannsskýring mín hér að ofan er því ómerk.