3.3.2008 21:33

Mánudagur, 03. 03. 08.

Í kvöld var ég í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins og ræddi um stjórnskipun og góða stjórnsýslu við áhugasaman hóp nemenda.

Ég fór meðal annars yfir þær stjórnskipulegu ákvarðanir, sem yrði að taka, ef stefna yrði tekin á aðild að Evrópusambandinu. Þá þyrfti að breyta stjórnarskrá og efna til þingkosninga af því tilefni. Einnig færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla og kannski tvisvar sinnum, fyrst til að kanna hug þjóðarinnar til þess, að í aðildarviðræður yrði ráðist og síðan um aðlidarsamninginn sjálfan. Í tengslum við það yrði nauðsynlegt að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslu og framkvæmd hennar.

Stjórnskipulegu álitamálin væru þannig mörg og flókin fyrir utan efnislega þáttinn sjálfan, hvort aðild yrði okkur til góðs. Efnahagslögmál og áhrif þeirra hyrfu ekki úr sögunni við aðild, en íslensk stjórnvöld hefðu hins vegar minna svigrúm til efnahagsráðstafana eftir aðild en án hennar. Síður en svo yxu gullepli á hverju tré innan Evrópusambandsins. Hagsæld væri almennt meiri í Evrópuríkjum utan sambandsins en innan.

Þeir, sem hæst töluðu um mikinn og skjótan hag Íslendinga af ESB-aðild, minntu á blekkingasmiði, sem fóru um Villta vestrið og predikuðu gæði lífselíxírs og sögðu hann allra meina bót, en áttu síðan oft fótum fjör að launa, þegar fjárplógsstarfsemi blasti við í stað heilsubata.

88% aðspurðra í Bretlandi vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um nýjan stofnsáttmála ESB. Gordon Brown og félagar í ríkisstjórn Bretlands verða að hafa þessir óskir að engu vegna eigin loforða gagnvart ESB-valdhöfunum í Brussel.