23.3.2008 21:00

Sunnudagur, 23. 03. 08. Páskadagur.

Flaug frá Amsterdam kl. 18.45 í gærkvöldi til Parísar og þaðan 23.15 í tæpa 14 tíma til Santiago í Chile. Þar var klukkan um 09.00 á páskadagsmorgni, þegar lent var í þoku. Var sagt, að tvær vélar úr langflugi hefðu orðið frá að hverfa vegna þokunnar , skömmu áður en Air France Boeing 777 þotan lenti. Út mars er þriggja tíma munur á klukkunni hér og á Íslandi. Eftir það hefst vetrartími hér og verður munurinn þá 4 tímar. Nú er klukkan 18.00 hér í Santiago en 21.00 á Íslandi. Hitinn í dag var um 30 gráður, þótt tekið sé að hausta. Santiago er í fjallverpi og er mikil mengun yfir borginni, enda íbúar um 5 milljónir af um 16 milljón manns, sem búa í Chile.

Ég hef aðeins fylgst áfram með netfærslum um gerendur og masara. Undarlegt er, hve fljótt sumir stökkva upp á nef sér vegna þessa.  Nefni ég þar til sögunnar bloggarna Benedikt Sigurðarson og Pétur Tyrfingsson. Þeir geta til dæmis ekki rætt málið, án þess að veitast persónulega að mér eða Guðmundi Magnússyni. Masarar gera allt til að halda lífi í innihaldslausri umræðu. Hún einkennist oft af skítkasti í garð einstaklinga í stað rökræðu um málefni. Þeir Benedikt og Pétur eru við það heygarðshornið.