Mánudagur, 24. 03. 08.
Hitti í dag Carlos Fanta de la Vega, forstjóra ASMAR-skipasmíðastöðvarinnar, og ræddi um smíði hins nýja varðskips en tilgangur ferðar minnar hingað til Chile er einmitt að taka þátt í athöfn, þegar lagður er kjölur að varðskipinu. Auk þess hitti ég fulltrúa stjórnvalda.
Tími gafst til að heimsækja forsetahöllina í miðborg Santiago og skoða fundarsal ríkisstjórnar ásamt fleiru undir leiðsögn fræðimanns, sem þekkti íslenskar bókmenntir, Halldór Laxness og Íslendingasögur og vissi um Eystribyggð og Vestribyggð á Grænlandi, Eirík rauða og fund Vínlands.
Á ferð okkar litum við inn í gamalt klaustur, sem hefur verið breytt í miðstöð fyrir handverksmenn og heimilisiðnað. Á leiðinni þaðan gengum við í flasið á fjórum íslenskum konum og varð fagnaðarfundur eins og jafnan, þegar Íslendingar hittast á fjarlægum slóðum, án þess að eiga hina minnstu von á því.