28.3.2008 20:42

Föstudagur, 28. 03. 08.

Síðasta daginn hér í Chile höfum við áfram rætt við forystumenn ASMAR skipasmíðastöðvarinnar um smíði nýja varðskipsins. Á morgun skilja leiðir okkar Íslendinganna hér. Georg Lárusson, forstjóri landhelgisgæslunnar, og hans menn verða hér áfram til að fara ofan í ýmsa tæknilega þætti vegna þessarar stórsmíði en ég held heim á leið.

Strax eldsnemma í morgun fóru að berast til mín fyrirspurnir frá fréttamönnum hingað út til Valparíso við Kyrrahafsströnd Chile vegna fullyrðinga um, að Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefði sagt starfi sínu lausu vegna skipulagsbreytinga á embætti hans. Við nánari athugun kom í ljós, að Jóhann hafði sagt, að hann ætlaði að ræða starfslok sín við dóms- og kirkjumálaráðuneytið.

Við Jóhann hittumst á fundi í ráðuneytinu með embættismönnum þess og síðan lykilstarfsmönnum embættis hans fyrir rúmri viku, það er 19. mars, miðvikudag fyrir páska. Þar skýrði ég frá þeirri niðurstöðu minni, að skynsamlegasta leiðin til að bregðast við tillögum frá embættinum um 200 m. kr. útgjöld á þessu ári umfram fjárlög og heimildir væri, að hvert ráðuneyti tæki málaflokka embættisins undir sína forsjá, að flugöryggismál færu undir samgönguráðuneyti, tollamál undir fjármálaráðuneyti og löggæsla og landamæravarsla færi undir dóms- og kirkjumálaráðuneyti.

Í niðurlagi tilkynningarinnar sagði:

Nú fer í hönd undirbúningsvinna vegna breytinganna og er stefnt að því að nýtt skipulag taki gildi frá 1. júlí 2008. Engin röskun verður á starfsemi Keflavíkurflugvallar og löggæslu á Suðurnesjum og engar uppsagnir eru fyrirhugaðar í tengslum við breytingarnar.“

Þetta var niðurstaða fundanna, sem ég átti með Jóhanni R. og samstarfsfólki hans 19. mars. Þá var boðað, að undirbúningsvinna vegna breytinganna yrði hafin. Ráðuneytið hafði mótað framtíðarstefnu fyrir embættið, eftir að hafa fengið tillögur frá því, sem sýndi það í fjárhagslegum ógöngum miðað við fjárlög 2008.

Nú 28. mars fæ ég um það fréttir, að lögreglustjórinn vilji ræða starfslok vegna málsins. Jafnframt les ég blogg um, að samstarf okkar Jóhanns hafi verið annað en gott og látið er að því liggja, að ég hafi verið samblástur gegn honum. Allt er þetta úr lausu lofti gripið, enda alrangt.

 

 

Vegna þessara frétta í dag sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið frá sér tilkynningu, þar sem segir:

„Í tilefni af fyrirspurnum frá fjölmiðlum varðandi breytingar á skipan löggæslu- og tollgæslumála á Suðurnesjum tekur dóms- og kirkjumálaráðuneytið fram eftirfarandi:

Rökin fyrir breytingunum eru alveg skýr; hagræðing, bætt stjórnsýsla og skýr ábyrgð. Undanfarin ár hefur rekstur embættisins farið fram úr fjárheimildum og með þessum aðgerðum er verið að leggja traustari grunn að skilvirkari stjórnsýslu og betra rekstrarumhverfi. Það að lögreglu- og tollstjórinn á Suðurnesjum hafi haft á einni hendi lög-, öryggis- og tollgæslumál er arfur frá þeim tíma er utanríkisráðuneytið fór með yfirstjórn mála á Keflavíkurflugvelli fyrir hönd allra ráðuneyta meðan á dvöl varnarliðsins stóð. Með breytingunni er verið að færa stjórnsýslulega skipan mála í það horf sem almennt er í landinu.

Skipulagsbreytingarnar miða að því að saman fari stjórnsýsluleg og rekstrarleg ábyrgð og eru þær ekki settar fram í sparnaðarskyni. Þær miðast að því að færa verkefnin undir forsjá þess ráðuneytis sem ber ábyrgð á hverjum málaflokki; tollgæslan heyrir undir fjármálaráðuneytið, öryggismál eru á forræði samgönguráðuneytis og löggæsla og landamæragæsla áfram á forræði dóms- og kirkjumálaráðherra.

Breytingarnar munu ekki hafa í för með sér minni samvinnu lögreglu, landamæragæslu, tollgæslu og öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli og eiga því á engan hátt að draga úr þeim árangri sem náðst hefur. Hér eftir sem hingað til munu tollverðir, lögreglumenn og öryggisverðir ákveða og skipuleggja samstarfið sín á milli þannig að það verði sem árangursríkast. Markmiðið er að styrkja hverja einingu en um leið að halda í heiðri og efla samstarfið á milli þeirra.

Tekið skal sérstaklega fram að ekki stendur til að færa landamæragæslu frá lögreglustjóraembættinu.

Ráðuneytinu hefur ekki borist uppsögn frá Jóhanni R. Benediktssyni.“

Því er haldið fram, að með embætti lögreglustjóra á Suðurnesjum hafi 1. janúar 2007 verið tekin ákvörðun um að sameina undir einum hatti öryggisgæslu, tollgæslu og löggæslu. Þetta er alrangt. Þá var tekin ákvörðun um að sameina alla löggæslu á Suðurnesjum undir einum hatti, leggja niður embætti sýslumanns á Keflavíkurflugvelli og gera sýslumanninn að lögreglustjóra. Í frumvarpi til varnarmálalaga, sem nú er fyrir alþingi, eru einmitt ákvæði þessu til staðfestingar með brottfalli lagaákvæða um sýslumann á Keflavíkurflugvelli á forræði utanríkisráðuneytisins. Með þeirri ákvörðun, sem nú hefur verið tekin og kynnt, er tryggt, að lögreglustjórinn að Suðurnesjum geti einbeitt sér að löggæslu og landamæravörslu.

Ég hef verið þeirrar skoðunar, að lögregla ætti að bera ábyrgð á flugöryggisgæslu. Samgönguráðuneytið hefur ekki verið sammála þeirri skoðun, eins og ráða má af því, að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnir þessu verkefni ekki á Reykjavíkurflugvelli heldur einkaaðili á grundvelli útboðs.

Æðsta stjórn tollamála á Keflavíkurflugvelli er og verður í höndum fjármálaráðuneytis. Með breytingu á embætti lögreglustjórans verða boðleiðir skýrar og ótvíræðar og án milligöngu af hálfu annars ráðuneytis. Umsvif tollgæslu á Keflavíkurflugvelli eru mikil og með öllu eðlilegt, að tengsl hennar og þess ráðuneytis, sem fer með tollamál, séu milliliðalaus.