4.3.2008 21:32

Þriðjudagur, 04. 03. 08.

Nýlega las ég lofsamlegan ritdóm um bókina Economic Facts and Fallacies eftir bandaríska prófessorinn Thomas Sowell. Eins og titillinn gefur til kynna lítur höfundur á ýmsar hagfræðikenningar og veltir fyrir sér, hvort um sé að ræða stðareynd eða rangfærslu.

Nú hef ég fengið bókina í hendur og sé, að þar er margt forvitnilegt. Greinilega er ekki allt, sem sýnist, þegar rýnt er í það, sem að manni er haldið sem hagfræðilegum staðreyndum. Sowell telur það til dæmis með helstu rangfærslu í húsnæðismálum, að ríkið verði að láta að sér kveða á húsnæðismarkaði með íbúðalánum, niðurgreiðslum eða vaxtaþaki til að tryggja fólki húsnæði á „viðráðanlegu verði“. Hann segir síendurteknar yfirlýsingar um gildi ríkisafskipta á þessu sviði ekki jafngilda, að þau skili því, sem að er stefnt. Þvert á móti sé auðvelt að sanna, að íhlutun ríkisvaldsins hafi breytt viðráðanlegu húsnæðisverði í óviðráðanlegt. Færir Sowell rök fyrir þessari fullyrðingu sinni.

Nú nýtur sú skoðun vaxandi hljómgrunns, að skaðsemi lánveitinga Íbúðalánasjóðs undanfarin ár verði seint metin til fulls. Starfsemi sjóðsins hefur þó jafnan verið rökstudd á þann veg, að hann auðveldi fólki að eignast þak yfir höfuðið á viðráðanlegum kjörum, hvað sem verðlagi líður. Húsnæðisverð hefur hins vegar hækkað í réttu hlutfalli við umsvif sjóðsins og bankanna, sem vildu ekki láta sitt eftir liggja í keppni við hann. Hver er það, sem græðir að lokum? má spyrja. Nægir í því sambandi að líta á hlut húsnæðiskostnaðar í hækkandi verðbólgutölum og þar með verðtryggðum lánum. - Ekki hefur náðst nein samstaða um að taka þennan kostnað út úr verðbólguvísitölunni, en það hefði dregið úr hækkun verðtryggðra lána húskaupenda eða byggjenda.