20.3.2008 17:40

Fimmtudagur, 20. 03. 08.

Við Sigmundur Ernir Rúnarsson hittumst í þætti hans Mannamáli sunnudaginn 16. mars og nú hef ég sett texta samtals okkar hér inn á síðuna með þeirri skýringu, að ég hafi slípað hann aðeins til að færa nær ritmáli og sett skýringar á fáeinum stöðum innan hornklofa. Ekki er hróflað við neinni skoðun.

Sigmundur Ernir minnist á samtal okkar á vefsíðu sinni 18. mars og í dag er orðum hans slegið upp á eyjan.is. Sigmundur Ernir segir meðal annars:

„Menn eru smám saman að átta sig á pólitískum þunga sem hvílir í Evrópuummælum Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra sem hann lét falla í Mannamáli á Stöð 2 á sunnudagskvöld.

Þar talaði hann um vegvísinn að Evrópu.

Vegvísinn, já.

Flokksglufan er að víkka.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra henti þessi ummæli á lofti í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag og virtist túlka ummæli Björns á þann veg að Evrópuumræðan innan Sjálfstæðisflokksins væri að taka nýja stefnu.“

Það er skemmtilegt að fylgjast með hvernig orð eru túlkuð og hvað þykir fréttnæmast af því, sem sagt er. Strax eftir þáttinn þótti merkilegast á visir.is, að ég teldi sjálfstæðismenn ekki einhuga í afstöðiu til ESB og málið gæti valdið krofningi í þeirra röðum. Hallgrími Thorsteinssyni þótti það ekki frétt heldur hitt um vegvísinn.

Mér finnst svo sjálfsagt, að heimavinna okkar Íslendinga skipti mestu í sambandi við tengsl okkar við Evrópu, að mér kemur á óvart, að mönnum þyki ábening um það boða tímamót.

Undrast má, að enginn taki undir með mér og velti fyrir sér, hvort Samfylkingin kunni að lenda í sömu stöðu í samstarfi við okkur sjálfstæðismenn og jafnaðarmenn í Þýskalandi, en þungt er sótt að þeim af nýjum flokki frá vinstri, flokki, sem minnir dálítið á vinstri/græn, þótt hann sé meira rauður en grænn.

Þetta skrifa ég í rigningu í Amsterdam en þangað hélt ég í morgun.

Hér heldur Hallgrímur Thorsteinsson áfram að ræða málið.