6.3.2008 17:58

Fimmtudagur, 06. 03. 08.

Þingvallanefnd kom saman til fundar í dag. Fjölgað var úr þremur í sjö í nefndinni eftir þingkosningar. Við það hefur starf nefndarinnar aukist að formfestu, dagskrá er í fastari skorðum og fundargögnum dreift á annan hátt en áður var. Auk þess sitja fleiri starfsmenn þjóðgarðsins fundi nefndarinnar en áður.

Fyrra lagið á störfum Þingvallanefndar var gott og skilaði miklum árangri fyrir þjóðgarðinn. Hin nýja skipan er einnig árangursrík, enda sýna allir nefndarmenn starfinu áhuga og leggja gott eitt til mála.

Neðri deild breska þingsins hafnaði í gærkvöldi með 311 gegn 248 tillögu Íhaldsflokksins um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýjan stofnsáttmála Evrópusambandsins, það er með 63 atkvæða mun.

25 þingmenn Verkamannaflokksins höfðu kröfu Gordons Browns forsætisráðherra um andstöðu við þjóðaratkvæðagreiðslu að engu - er þetta mesta andstaða við Evrópustefnuna innan þingflokksins síðan flokkurinn komst til valda árið 1997.

William Hague, málsvari Íhaldsflokksins í utanríkismálum, lýsti þeirri von, að lávarðadeildin mundi samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu og þar með knýja Verkamannaflokkinn og Frjálslynda flokkinn til að efna kosningaloforð sín um, að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Samtök iðnaðarins efndu til iðnþings í dag og áréttuðu þar stefnu sína um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Rökin fyrir aðild hjá talsmönnum hennar hafa verið misjöfn í áranna rás. Nú er þau, að evra komi ekki án aðildar - evran verði að koma, af því að krónan dugi ekki lengur.

Þegar um allt þraut greip Hillary Clinton til hræðsluáróðurs til að ná sér aftur á strik gagnvart Barack Obama. Hræðsluáróðri vegna krónunnar er nú beitt til að ýta okkur inn í Evrópusambandið.