Föstudagur, 14. 03. 08.
Klukkan 09.15 setti ég ráðstefnu um öryggis- og neyðarfjarskipti að hótel Loftleiðum.
Í Slóveníu hitti ég meðal annarra ráðherra Günther Platter, innanríkisráðherra Austurríkis. Við skiptumst á upplýsingum um, hvaÐ hæst bæri í störfum okkar. Hann sagðist hafa fengið frétt um það daginn áður, að tveimur austurrískum ferðamönnum hefði verið rænt í Túnis.
Ég sé á vefsíðu BBC í dag, að talið er að al-kaída liðar hafi rænt ferðafólkinu 22. febrúar. Í gær kröfðust mannræningjarnir þess, að austurrísk stjórnvöld tryggðu, að innan þriggja daga fengju al-kaída liðar í fangelsum í Túnis og Alsír frelsi, annars týndu gíslarnir lífi.
Alfred Gusenbauer, kanslari Austurríkis, sagði í dag, að ekki yrði farið að kröfum al-kaída. Hryðjuverkamennirnir hafa varað ferðamenn frá Vesturlöndum við að ferðast til Túnis og annarra landa Norður-Afríku, það er Marokkó, Alsír og Máritaníu.