19.3.2008 7:51

Miðvikudagur, 19. 03. 08.

Í dag efndi ég til fundar með Jóhanni Benediktssyni, lögreglustjóra á Suðurnesjum, og síðan með lykilstjórnendum embættis hans til að skýra þeim frá þeirri ákvörðun, að starfsemi embættisins verði löguð að verkaskiptingu innan stjórnarráðsins. Samgönguráðuneytið hefur tekið að sér rekstur Keflavíkurflugvallar og þar með flugöryggismál, sá þáttur verður því á verksviði þess, þar með skoðun á farangri við brottför. Fjármálaráðuneytið fer með tollamál og fer með yfirstjórn þeirra þarna eins og annars staðar á landinu. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið fer með löggæslu- og landamæravörslu.

Að þetta skuli allt hafa verið undir einum hatti ber að rekja til dvalar varnarliðsins og þess hlutverks utanríkisráðuneytisins að koma fram fyrir öll ráðuneyti á Keflavíkurflugvelli. Þegar varnarliðið fór, var lýst yfir því, að stjórnsýsla myndist breytast og laga sig að almennri stjórnsýslu í landinu. Utanríkisráðuneyti er nú að láta af stjórn flugmála í hendur samgönguráðuneyti og þess vegna er eðlilegt að koma skipan þeirra í varanlegt horf, þar á meðal flugvernd og öryggisgæslu.

Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður Tollvarðafélags Íslands og forystumaður við tollgæslu á Keflavíkurflugvelli, sat fund okkar í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í dag og lagði þar gott til mála. Hann lýsir í fréttum áhyggjum af því, að þessi breyting kunni að leiða til verri tollgæslu. Á visir.is segir:

„Hann (Guðbjörn) segir að í yfirlýsingu frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu komi fram að með þessu eigi að bæta tollgæsluna en bendir á að tollgæslan á Suðurnesjum hafi verið að skila toppárangri, þeim besta í landinu. „Ég skil því ekki hver á að segja okkur til verka," segir Guðbjörn að lokum.“

Í tilkynningu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins segir um þennan þátt:

„Forræði á sviði stjórnsýslu og samfélagsþróun á Suðurnesjum verða að haldast í hendur til að tryggja hátt þjónustustig. Skipulagsbreytingarnar miða að því að styrkja daglega löggæslu í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum með því að einfalda rekstur lögreglustjóraembættisins. Jafnframt er þeim ætlað að styrkja tollgæslu og samhæfða framkvæmd flugverndarmála. Lögð er áhersla á, að ekki verði hróflað við hinu nána og góða faglega samstarfi við lög- og tollgæslu á svæðinu.“

Eins og gefur að skilja hefur fjármálaráðuneytið ekki ákveðið á þessari stundu, hverjir eiga að segja tollvörðum til verka, enda gefa menn sér tíma til 1. júlí til að hrinda málum í framkvæmd og þar til fer lögreglustjórinn með stjórn tollamála á svæðinu. Ástæðulaust er að ætla annað en þessi þáttur málsins verði leystur á farsælan veg, enda vakir ekki fyrir neinum að ganga á hlut tollvarða eða tollgæslu.

Eins og jafnan eru blaðamenn misjafnlega vel að sér og afla sér ekki nægilegra heimilda, áður en þeir setjast við skriftir. Á dv.is segir til dæmis í tilefni af þessum skipulagsbreytingum:

„Nýlega sameinað lögregluembætti á Suðurnesjum verður nú hlutað í sundur vegna rekstrarhalla. Tollgæsla fer aftur til fjármálaráðuneytis, yfirstjórn öryggismála á Kaflavíkurflugvelli fer heim til samgönguráðuneytis og löggæsla og landamæravarsla fellur undir dómsmálaráðuneyti.“

Tollgæsla á Keflavíkurflugvelli hefur ekki verið hjá fjármálaráðuneyti í meira en hálfa öld, því að utanríkisráðuneytið fór með hana eins og önnur mál, þar til embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum var stofnað 1. janúar 2007. Hið sama er að segja um flugverndarmálin, þau voru einnig hjá utanríkisráðuneytinu en nú er samgönguráðuneyti að taka að sér stjórn Keflavíkurflugvallar og þá er eðlilegt, að þessi málaflokkur fari til þess.

Sameiningin 1. janúar 2007 laut að löggæslunni, því að lögreglustjóranum var falin öll löggsæsla á Suðurnesjum, hvort heldur innan eða utan flugvallar. Ekki er hróflað við þeirri skipan, þegar verkefni eru flutt undir ráðuneytin, sem fara með málaflokkinn.

Blaðamaðurinn gefur sér, að rekstrarhalli ráði þessari ferð. Fjárhagsumræður um embættið hafa snúist um rekstraráætlun, sem gerði ráð fyrir meiri útgjöldum en fjárlög heimila.