17.3.2008 20:36

Mánudagur, 17. 03. 08.

Var um hádegisbil með samstarfsfólki í ráðuneytinu á Litla Hrauni, þar sem Páll Winkel, fangelsismálastjóri, og Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður fangelsisins, tóku á móti okkur með samstarfsfólki sínu. Að loknum hádegisverði í mötuneyti starfsmanna var efnt til fundar með starfsfólkinu í íþróttasal fangelsins. Þar ræddi ég þau mál, sem efst eru á baugi í rekstri og uppbyggingu fangelsa, og svaraði fyrirspurnum.

Síðan gengum við um staðinn og kynntum okkur aðstæður, sem hafa tekið og eru að taka miklum breytingum til hins betra.

Á grundvelli stefnu í menntamálum fanga, sem mótuð var í samvinnu menntamálaráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis, hefur menntamálaráðherra nú ráðið starfs- og námsráðgjafa til starfa fyrir fanga. Ég tel brýnt að sambærileg stefna verði mótuð í samvinnu dóms- og kirkjumálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis um læknis- og meðferðarþjónustu fanga. Stundum mætti ætla, að annað heilbrigðiskerfi ætti við um fanga en landsmenn almennt. Svo er auðvitað ekki. Þurfa heilbrigðisyfirvöld að koma markvisst til móts við hið góða starf, sem nú er unnið á Litla Hrauni til að losa fanga úr viðjum fíkniefna.  Hér þarf hið félagslega kerfi ríkis og sveitarfélaga einnig að láta að sér kveða með stjórnendum og starfsmönnum fangelsa.

Frá Litla Hrauni ókum við til sýslumannsins á Selfossi, Ólafs Helga Kjartanssonar, og hittum hann með Oddi Árnasyni, yfirlögregluþjóni, og samstarfsmönnum þeirra. Kynntu þeir okkur viðamikið og sívaxandi starf á vegum embættisins og svöruðu fyrirspurnum okkar um einstök atriði, áður en við hittum annað starfsfólk.

Mikill metnaður er hjá þessum stofnunum ráðuneytisins og gott og náið samstarf milli þeirra. Hvatti ég til þess að haldið yrði áfram á sömu braut og meðal annars hugað að nánara samstarfi með fíkniefnahunda, en sá á Litla Hrauni mun nefndur Moli Björnsson með vísan til afskipta minna af tilvist hans á staðnum.