10.3.2008 18:56

Mánudagur, 10. 03. 08.

Í morgun hitti ég lögreglustjórann á Suðurnesjum og samstarfsfólk hans til að ræða fjármál embættisins og rekstraráætlun fyrir árið 2008, sem þarf að falla að fjárlögum og reglum um framkvæmd þeirra.

Síðan hélt ég kl. 14.15 til Kaupmannahafnar, þar sem þetta er skrifað, á leið til Schengen-ráðherrafundar í Bled í Slóveníu en landið er nú í forsæti meðal ESB-landa.

Ég rakst einhvers staðar á þá skoðun, að skýrsla Evrópunefndar væri ekki um aðild að Evrópusambandinu. Þeir, sem héldu það, hafa í eitt ár vaðið reyk í Evrópuumræðunum. Skoðun þeirra á samhljóm í því, að ekki fari fram neinar Evrópuumræður, af því að stefnan hefur ekki verið tekin á aðild að Evrópusambandinu.

Álitsgjafar í hópi fjölmiðlamanna, sem tala á þennan veg, hafa oftast ekkert bitastætt til málanna að leggja sjálfir. Þeim fer ekki vel að gera lítið úr verkum þeirra, sem hafa lagt mikið af mörkum til umræðna um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Það gerði Evrópunefndin með skýrslu sinni og við framkvæmd tillagna hennar reynir á burði íslenska stjórkerfisins til enn virkari þátttöku í Evrópusamstarfinu. Mér finnst í raun furðulegast, þegar málsvarar aðildar að ESB, gera lítið úr slíkum tillögum.