13.3.2008 18:17

Fimmtudagur, 13. 03. 08.

Enn einu sinni er ég á Kastrup að bíða eftir flugvél. Að þessu sinni á leið frá Lubljana í Slóveníu með millilendingu í Vínarborg og síðan nokkuð langri bið hér, sem gaf tóm til að svara tölvupósti og semja texta af ýmsu tagi.

Áhrif löggæslu eru mælanleg á ýmsan hátt, Hér sést eitt dæmi, sem birtist á vefsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag:

„Brot 137 ökumanna voru mynduð í Hvalfjarðargöngum frá mánudegi til fimmtudags í þessari viku eða á rúmlega 68 klukkustundum. Vöktuð voru 5.927 ökutæki og því ók lítill hluti ökumanna, eða 2%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var rúmlega 84 km/klst en þarna er 70 km hámarkshraði. Fimmtán óku á 90 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 110.

Við vöktun á sama stað í janúar árið 2007 óku hlutfallslega mun fleiri ökumenn of hratt eða yfir afskiptahraða, eða 5%. “

Enn fæ ég tölvubréf frá þeim, sem lýsa undrun yfir héraðsdóminum í gær vegna árásar á lögreglumenn á Laugaveginum. Ég vísa til þess, sem ég sagði hér á síðunni í gær.