1.3.2008 11:44

Laugardagur, 01. 03. 08.

Ísland er að verða eins og Kúba, sagði Gunnar Smári Egilsson í þættinum Í vikulokin rétt í þessu. Málflutningurinn endurspeglaði sjónarmið, sem virðist vera stefna Baugsmiðlanna um þessar mundir, að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, talaði í sama þætti á þann veg um flokk sinn, að helst mátti ætla, að hún hefði afskrifað hann. Þó sá hún ljós í myrkrinu, þegar henni var hugsað til Halldórs Ásgrímssonar. Valgerður sagði meira að segja, að ársgömul skýrsla Evrópunefndar, sem ég stýrði, væri að verulegu leyti endurprentun á skýrslum Halldórs Ásgrímssonar. Þetta er einfaldlega hreinn uppspuni. Valgerður hefur varla lesið skýrslu Evrópunefndar eða aðrar Evrópuskýrslur, sé hún í raun þessarar skoðunar. Þar er einmitt að finna ýmislegt, sem gengur þvert á orð Halldórs Ásgrímssonar um Evrópumálin.

Síst er að undra, að sú spurning vakni, hvort Framsóknarflokkurinn sé lífs eða liðinn, þegar varaformaður hans talar á þennan veg.