Miðvikudagur, 05. 03. 08.
Siv Friðleifsdóttir lagði þessa fyrirspurn fyrir mig á alþingi: Telur ráðherra koma til greina að taka upp notkun svokallaðra ökklabanda til að tryggja betur farbann grunaðra sakamanna? Hún óskaði eftir skriflegu svari og er það svona:
„Dómsmálaráðuneytið telur að kanna eigi til hlítar hvernig best yrði staðið að því að nýta rafræn eftirlitskerfi til að framfylgja farbanni eða fullnustu refsinga. Rafræn ökklabönd hafa verið í notkun með góðum árangri víðs vegar í heiminum, m.a. í Bandaríkjunum, Bretlandi og Svíþjóð svo að dæmi séu nefnd. Rafræn ökklabönd er hægt að nýta við afplánun vægari refsinga, t.d. vararefsingar fésekta, og með þeim yrði einnig unnt að hafa betra eftirlit með kynferðisafbrotamönnum sem fá reynslulausn.
Með hinum rafræna tæknibúnaði má skilgreina „heita reiti“, þ.e. svæði sem sakamaður má ekki fara til, svo sem flugvelli, hafnir o.s.frv. Nálgist sakamaður með rafrænt ökklaband „heitan reit“ sendir tækið frá sér viðvörunarmerki til stjórnstöðvar sem kemur boðum áleiðis til réttra yfirvalda.“
Undir forystu Margrétar Frímannsdóttur, fangelsisstjóra á Litla Hrauni, er reglum um bann við fíkniefnum í fangelsinu fylgt fram af þunga. Er í senn réttmætt og tímabært að grípa til hertra aðgerða og í samræmi við markmið fangelsisyfirvalda um að auðvelda föngum að losna undan fíkninni. AA starf hefur skotið góðum rótum á Litla Hrauni að frumkvæði fanga og eiga þeir allir rétt á því að vera lausir undan ánauð þeirra, sem halda að þeim fíkniefnum.
Á þingi í dag svaraði ég tveimur fyrirspurnum. Frá Björk Guðjónssdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, um löggæsluskóla á Keflavíkurflugvelli, og Siv Friðleifsdóttur um nýja lögreglustöð/fangelsi á höfuðborgarsvæðinu.