Miðvikudagur 01. 06. 05.
Klukkan 09.30 hófst fundur í skrifstofu EFTA í Brussel. William Rossier, framkvæmdastjóri EFTA, ræddi um ákvarðanaferlið milli ESB og EFTA vegna EES-samningsins. Bernhard Marfurt, sendiherra Sviss gagnvart ESB, sagði frá reynslu Svisslendinga af tvíhliða samningagerð við ESB. Þá ræddi Þórunn Hafstein, skrifstofustjóri hjá EFTA, um rekstur EES-samningsins.
Í hádeginu hittum við Francis Jakobs, skrifstofustjóra umhverfisnefndar Evrópusambandsþingsins, og fræddumst um starfsemi þingsins.
Síðdegis flutti Lillian Andenæs hjá EFTA fyrirlestur um þjónustutilskipun ESB, sem er í mótun.
Við svo búið bjuggust sumir nefndarmanna til heimferðar, aðrir til annarra funda erlendis, þar á meðal ég.