Mánudagur 18. 02. 13
Fréttir kvöldsins herma að viðræður séu hafnar milli þingmanna Samfylkingar og Framsóknarflokksins um að beyta einhverjum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Hugmyndin um nýja stjórnarskrá virðist þar með úr sögunni. Eigi að setja ný ákvæði í stjórnarskrá verður það gert í lýðveldisstjórnarskrána frá 1944. Til þessa hefur Jóhanna Sigurðardóttir viljað að sett yrði ný stjórnarskrá sem kenna mætti við hana. Draumur hennar er úr sögunni.
Fréttastofa ríkisútvarpsins sagði ekki frá málinu á þennan hátt. Þetta er þó meginfréttin núna. Fallið hefur verið frá áformum um nýja stjórnarskrá.
Á ruv.is má lesa í kvöld: „Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn hafa hafið formlegar samningaviðræður um hvernig afgreiða eigi stjórnarskrárfrumvarpið.“ Ber ekki að skilja þetta þannig að stjórnarskrárfrumvarpið sé ekki lengur á dagskrá heldur hvernig eigi að taka ákvæði úr því og fella inn í núgildandi stjórnarskrá? Hvaða annan skilning er unnt að leggja í þessi orð? Að núgildandi stjórnarskrá verði felld inn í frumvarpið sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins hefur flutt?
Stjórnarskrármálið er á sama reit og það var um þetta leyti fyrir fjórum árum. Þá tóku þingmenn Samfylkingar og Framsóknarflokks höndum saman um breytingu á stjórnarskránni. Samstarfið snerist einkum um að svipta alþingi valdi stjórnlagagjafans og færa það annað. Þessi atlaga að valdi alþingis misheppnaðist og ekki varð nein breyting á stjórnarskránni. Jóhanna Sigurðardóttir hélt illa á málinu og klúðraði því vegna þvermóðsku sinnar. Hún kann ekki að semja. Hefur hún lært eitthvað á fjórum árum?
Steingrímur J. Sigfússon sagði í Kastljósi kvöldsins að Samfylkingin undir forystu Jóhönnu hefði haldið vitlaust á ESB-málinu eftir kosningarnar 25. apríl 2009 þegar hún neitaði að leggja það undir dóm kjósenda áður en sótt var um aðild. Steingrímur J. sagðist hafa viljað fara þá leið en Jóhanna mátti ekki heyra á það minnst. ESB-umsóknin er nú í klessu og 77% þjóðarinnar eru á móti aðild.
Það verður æ óskiljanlegra hvers vegna ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna hafa svo lengi látið stjórnast af þvermóðsku Jóhönnu Sigurðardóttur. Hafi verið tilgangur hennar að eyðileggja VG og stjórnmálaferil Steingríms J. tókst það. Málefnin er almennt í verri stöðu en þegar ríkisstjórnin tók að glíma við þau.