15.2.2013 21:40

Föstudagur 15. 02. 13

Um síðustu helgi birtust fréttir um að fram færu viðræður á bakvið tjöldin um að búta tillögur stjórnlagaráðs niður og samþykkja einhvern hluta stjórnlagatillagnanna í stað þeirra allra. Þegar þing kom saman sl. mánudag og þingflokkur Samfylkingarinnar hittist var slegið á allar hugmyndir um bútasaum í stjórnarskrármálinu. Var augljóst að Jóhanna Sigurðardóttir hafði heimtað að siglt yrði áfram með stjórnarskrártillögurnar þótt þær sætu fastar á skeri. Virtust einhverjir trúa að björgun bærist frá Feneyjanefndinni, ráðgjöfum um stjórnarskrármálefni á vegum Evrópuráðsins.

Álit Feneyjanefndarinnar var kynnt í vikunni. Álítið eykur á vanda þeirra sem fylgja stefnu Jóhönnu í stjórnarskrármálinu. Eigi að fara að álitinu þarf að fara yfir stjórnlagatillögurnar í heild, stokka þær upp og huga auk þess að ýmsum mikilvægum greinum.

Þingflokkur Samfylkingarinnar kom saman í dag til sérstaks fundar um stjórnarskrármálið. Að honum loknum gaf Jóhanna Sigurðardóttir ekki yfirlýsingu heldur Árni Páll Árnason flokksformaður sem sagði meðal annars við fréttastofu ríkisútvarpsins:

„Við ræddum auðvitað slíka möguleika [bútasaum]. Við ræddum einnig ábendingu Feneyjanefndarinnar um að einfalda breytingaferli stjórnarskrárinnar til þess að auðvelda úrvinnslu einhverra áfanga á síðari stigum, en það var engin niðurstaða í því. Við verðum auðvitað að bíða eftir því að þau öfl sem hingað til hafa hingað til beitt málþófi komi með jákvæðar tillögur um hvernig hægt sé að finna málinu frekari framgang. Við þurfum að fara yfir málið með öðrum flokkum og finna málinu eins heppilegan farveg og mögulegt er.“

Þetta er skrýtið svar miðað við heitstrengingarnar í upphafi vikunnar. Samfylkingin tekur enga efnislega afstöðu frekar en fyrri daginn. Nú er það ekki Feneyjanefndin sem á að rétta hjálparhönd heldur stjórnarandstaðan, þeir sem hafa „beitt málþófi“. Það eru þeir sem eiga að kynna „jákvæðar“ tillögur um hvernig þoka eigi stjórnarskrármálinu áfram. Finna á málinu farveg með öðrum flokkum.

Spurningin er: Styður Jóhanna Sigurðardóttir þessa afstöðu Árna Páls? Eða Þór Saari? Stjórnarandstöðunni ber síður en svo nokkur skylda til að hjálpa Samfylkingunni úr stjórnarskrárvíti hennar. Hæfilegt er að málið sé skilið eftir í núverandi stöðu fram yfir kosningar og tekið verði á því í heild að nýju að þeim loknum. Nokkrum stjórnlagaráðsliðum er orðið ljóst að þetta er staðan og hafa þeir því stofnað nýjan stjórnmálaflokk til að berjast fyrir málstað sínum í von um að hafa bein áhrif á þingi að kosningum loknum.