Fimmtudagur 21. 02. 13
Bjarni Benediktsson lagði spilin vel á borðið í setningarræðu 41. landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Viðmælendur Gunnars Gunnarssonar í Spegli ríkisútvarpsins höfðu alltof mikla fyrirvara þegar þeir sögðu álit sitt á ræðunni og annar lét jafnvel eins og í henni hefði verið eitthvað að finna sem minnti á Jón Gnarr borgarstjóri. Allt sem Bjarni boðaði er framkvæmanlegt fái Sjálfstæðisflokkurinn til þess umboð.
Í Kastljósi spurði Helgi Seljan Bjarna um þau atriði í ræðunni sem honum þótti sérstaklega þarfnast skýringa og Bjarni svaraði skilmerkilega. Hann skaut sér ekki undan að svara eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gerði þegar Helgi ræddi við hann eftir flokksþing framsóknarmanna. Svarið sem Sigmundur Davíð gaf um úrræði framsóknarmanna í þágu heimilanna var óskiljanlegt.
Bjarni sagði í ræðu sinni:
„Ísland er réttarríki. Hér á landi er lögð áhersla á að vernda eignarrétt og tryggja sanngjarna og eðlilega málsmeðferð. Við munum áfram standa vörð um þessi gildi. En, við ætlum ekki að sætta okkur við, að fyrir það eitt að erlendir aðilar hafi eignast kröfur á þrotabú fallinna einkabanka, þá sé þjóðinni allri, heimilunum og atvinnulífinu, haldið í spennitreyju gjaldeyrishafta.Fráfarandi ríkisstjórn hefur algerlega brugðist í þessum málum, hik og sleifarlag hefur einkennt allar aðgerðir hennar. Nú er kominn tími til að setja afarkosti með almannahag að leiðarljósi. Þessar kröfur þarf að afskrifa að verulegu leyti. Í þágu almannahags - í þágu heimilanna.“
Ekki er vafi á að þessi yfirlýsing Bjarna ein verður til þess að lækka kröfurnar í þrotabú föllnu bankanna. Verði henni fylgt eftir af staðfestu munu kröfuhafarnir slá enn frekar af kröfum sínum. Þeir keyptu þær á mun lægra verði en þeir vilja fá úr þrotabúunum. Mikilvægt er að fá til liðs við stjórnvöld í þessu efni menn sem þrautþjálfaðir eru í að glíma við vanda af þessu tagi, slíka sérfræðinga er ekki að finna í Seðlabanka Íslands og því síður hjá ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sannaði enn í dag hve lítið erindi hann á á alþingi. Ég skrifaði um hann á Evrópuvaktina eins og sjá má hér.