11.2.2013 18:55

Mánudagur 11. 02. 13

 

Engum blöðum er um að fletta að fyrir helgi var unnið að því á bakvið tjöldin að leita leiða til sameiginlegrar niðurstöðu um stjórnarskrármálið á alþingi. Öllum skynsömum mönnum ætti að vera ljóst að ekki er unnt að afgreiða málið á þessu þingi nema kastað sé til þess höndunum. Málið snýst ekki lengur um góðan vilja neins eða andstöðu heldur hreinlega skort á tíma til að vinna verkið á þann veg að til sóma sé og hæfi stjórnarskrá og þeim gögnum sem óhjákvæmilegt er að henni fylgi. Engu er líkara en að á þingi hafi menn raunverulega trúað að stjórnlagaráðið hafi gengið þannig frá málinu að unnt væri að taka það til afgreiðslu.

Málinu er alls ekki þannig háttað. Margar yfirlýsingar stjórnlagaráðsliða benda til að þeir hafi ekki lesið eigin tillögur í samhengi og lagt niður fyrir sér hvernig staðið yrði að málum næðu þær fram að ganga. Ég hef fengið tvo viðmælendur til mín á ÍNN um málið, annars vegar gamalreyndan stjórnmálamann, Sighvat Björgvinsson, hann var um tíma formaður Alþýðuflokksins, og hins vegar Stefaníu Óskarsdóttur, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hvorugt hefur neinna hagsmuna að gæta varðandi tillögur stjórnlagaráðs annarra en þeirra að þau hafa þekkingu á málinu, vegna starfsreynslu og fræðistarfa. Bæði gagnrýndu þau frumvarpið með svo sterkum rökum að beinlínis er hættulegt að festa það óbreytt í lög. Íslensku stjórnkerfi er kollvarpað án þess að nokkur leið sé að gera sér grein fyrir hvað kemur í stað þess kerfis sem nú er lögfest.

Glundroðinn sem ríkir á alþingi og í landstjórninni við lok stjórnmálaferils Jóhönnu Sigurðardóttir er algjör: Landspítalinn er að sligast vegna óþolandi vinnubragða velferðarráðherra; sjávarútvegurinn er enn í uppnámi vegna enn eins frumvarpsins um að vegum rótum velgengni í fiskveiðum; aðilar vinnumarkaðarins hafa slitið stjórnmálasambandi við ríkisstjórnina og algjör óvissa ríkir um framtíð stjórnarhátta landsins.

Á meðan þingflokkar komu ekki saman vegna hlés í störfum alþingis reyndi nýr formaður Samfylkingarinnar að þreifa fyrir sér um samkomulag vegna stjórnarskrármálsins. Strax og þingflokkur Samfylkingarinnar hittist í dag er slegið á fingurna á honum og hann lætur fréttastofu ríkisútvarpsins ná í sig til að segja að stefnt sé að afgreiðslu hins meingallaða stjórnarskrárfrumvarps fyrir þinglok.