Mánudagur 25. 02. 13
Það sást í Kastljósi kvöldsins hvers vegna VG ákvað að efna til landsfundar um sömu helgi og Sjálfstæðisflokkurinn. Tilgangurinn var að láta líta svo út sem flokkarnir stæðu jafnfætis, jafnvel að þeir væru jafnstórir. Þeim var stillt andspænis hvort öðru: Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, varaformanni Sjálfstæðisflokksins, og Birni Vali Gíslasyni, varaformanni VG. Talaði Björn Valur eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefði á einhvern hátt einangrað sig og ætti fárra eða nokkurra kosta völ að loknum landsfundinum. VG hefði allt í hendi sér eftir að flokkurinn hafði lagst flatur fyrir Samfylkingunni.
VG berst fyrir lífi sínu og skipti um andlit á landsfundinum af því að stofnandi flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, hefði annars getað gengið að flokknum dauðum. Í átakamestu atkvæðagreiðslunni á fundi VG tóku færri þátt en í fjölmennri nefnd á fundi sjálfstæðismanna.
249 tóku þátt í kjöri varaformanns VG. Björn Valur fékk 57% atkvæða, það er 142 atkvæði. 1228 tóku þátt í varaformannskjöri Sjálfstæðisflokksins, 1179 atkv. voru gild og hlaut Hanna Birna 1120 atkv. eða 95%.
Þessar tölur segja allt um hvort þeirra er á kantinum Björn Valur eða Hanna Birna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur mun víðtækari og sterkari rætur meðal þjóðarinnar en VG. Björn Valur heldur áfram skítkasti í Sjálfstæðisflokkinn og VG heldur áfram að minnka.
Þeir sem fylgst hafa með umræðum um íslensk stjórnmál áratugum saman kannast við innihaldsleysi fullyrðinga eins og þeirra sem fallið hafa í dag um að ályktun sjálfstæðismanna um að tekið skuli af skarið í ESB-viðræðunum einangri flokkinn.
Stjórnmálamenn eru gagnrýndir fyrir miðjumoð og óljósar yfirlýsingar. Hitt bregst síðan ekki að sé tekið af skarið streyma alls kyns spekingar fram á sjónarsviðið og segja að hin skýra afstaða sé viðkomandi stjórnmálaflokki til vandræða. Hann útiloki sig frá öðrum. Það er ótrúlegt hvað fréttastofa ríkisútvarpsins er iðin við að leita að slíku fólki þegar Sjálfstæðisflokkurinn á í hlut.
Hanna Birna Kristjánsdóttir átti ekki í neinum vandræðum með að skýra stefnu Sjálfstæðisflokksins í Kastljósinu. Öllum er ljóst að stefnan einangrar ekki flokkinn. Hverjum dettur í hug að nokkur skynsamur maður vilji kjósa áfram yfir sig stjórn Samfylkingar og VG að nýju til að komast í ESB?