Fimmtudagur 14. 02. 13
Æ betur skýrist að pólitísk afskipti Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra af lögreglurannsókn bandarískra og íslenskra yfirvalda stafa af tilraun hans til að halda verndarhendi yfir Wikileaks upplýsingavefsíðunni en Julian Assange, upphafsmaður hennar, er í sjálfskipuðu stofufangelsi í sendiráði Ekvador í London af því að hann þorir ekki að mæta fyrir dómara í Svíþjóð. Hönnuð hefur verið samsæriskenning um að fari Assange til Stokkhólms verði hann framseldur til Bandaríkjanna.
Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, segir á fasbókarsíðu sinni í dag:
„Þetta er ein umfangsmesta sakarannsókn síðari tíma og engu er eirt í ofstækinu eins og Íslandsheimsóknin sannar. Og hver er glæpurinn? Jú að birta eins og hver annar fjölmiðill og í samstarfi við 100 aðra fjölmiðla, opinber skjöl m.a. um stríðsglæpi og vafasama utanríkisstefnu stjórnvalda. Það hefur aldrei áður verið gerð jafn viðamikil og meðvituð tilraun til að drepa sendiboðann.
Á ég að trúa því þingmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks vilji aðstoða við þessar nornaveiðar? Endilega svarið því fyrir stjórnarmyndun í vor svo ég geti gert persónulegar ráðstafanir í samræmi við svörin.“
Óljóst er hvað niðurlagsorð Kristins þýða. Hitt er ljóst að hann telur að Ögmundur Jónasson og Össur Skarphéðinsson hafi gengið í lið með sér og Wikileaks til að hefta rannsókn FBI hér á landi. Að innanríkis- og utanríkisráðherrar lands skuli beita valdi sínu á þennan hátt þegar rannsókn á vegum lögreglu og ákæruvalds er annars vegar sýnir virðingarleysi fyrir lögum og rétti.
Hvers vegna má ekki rannsaka starfsemi Wikileaks? Hafi engin lög verið brotin þurfa Julian Assange og Kristinn Hrafnsson ekkert að óttast. Af hverju er Kristinn svona hræddur? Ætlar hann að sækja um hæli með Assange verði stjórnarskipti á Íslandi?
Það er furðuleg staða sem þessir Wikileaks-menn hafa skapað sér. Þeir birta gögn sem kemur fjölda fólks í vanda, meðal annars embættismönnum íslenska utanríkisráðuneytisins. Birt var skjal sem sýndi að Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, hefði farið í sendiráð Bandaríkjanna í byrjun janúar 2010 og sagt að Ísland yrði gjaldþrota árið 2011 drægist Icesave-málið á langinn.
Nú telur Kristinn sjálfsagt og eðlilegt að utanríkisráðuneytið líti á Wikileaks sem hvern annan fjölmiðil og taki þátt í að spilla pólitísku sambandi við Bandaríkin í þágu Wikileaks. Þar eru ekki íslenskir hagsmunir í húfi heldur einkahagsmunir Kristins og Assange. Það eru hörmuleg mistök að blanda íslenska ríkinu og þjóðinni á þennan hátt inn i þetta mál.