Fimmtudagur 07. 02. 13
Við héldum eldsnemma af stað frá Róm með Lufthansa í morgun til München og þaðan til Keflavíkur með Icelandair þar sem vélin lenti nákvæmlega á áætlun. Jörð var alhvít í München. Þegar ég ók fram hjá Dalshrauni í Hafnarfirði bilaði bíllinn, ég kom honum inn á Max1.Úr því að þetta varð að gerast, gat það ekki orðið á betri stað.
Á meðan ég beið eftir flugvélinni í München skrifaði ég pistil á Evrópuvaktina sem má lesa hér. Þar lýsti ég þeirri skoðun að umræður um fangaflug og Ísland mætti að nokkru skýra sem leit vinstri-grænna að kosningamáli. Þegar ég hlustaði á Spegil fréttastofu ríkisútvarpsins í kvöld þar sem rætt var við Árna Þór Sigurðsson (VG), formann utanríkismálanefndar alþingis, undanfarin ár eins og hann bæri enga ábyrgð á að ekki hefði verið upplýst um það sem hann og aðrir telja vanta til að svara spurningum um fangaflugvélar eða ákvarðanir íslenskra stjórnvalda vegna innrásarinnar í Írak síðla vetrar 2003.
Í tíu ár hefur fréttastofa ríkisútvarpsins látið eins og eitthvað sé óupplýst varðandi þessi mál og á vegum hennar velta menn vöngum um málið í samtölum við Árna Þór og aðra sem tala í hálfkveðnum vísum og um að rannsaka þurfi hitt og þetta án þess að hafa sjálfir dug eða styrk til að gera það.
Hvers vegna leggjast fréttamenn ríkisútvarpsins ekki í þær rannsóknir sem þeir telja að þurfi til að upplýsa þessi mál? Er það ekki hlutverk þeirra sem fréttamanna? Eða er hlutverkið að gefa fylgislausum forystumönnum VG tækifæri til að velta sér upp úr einhverju sem þeir eiga sjálfir að leiða til lykta vegna ábyrgðar sinnar meðal annars í formennsku utanríkismálanefndar alþingis?
Nú virðist nýtt mál á döfinni sem geti orðið að óupplýstu máli í áratug eða svo. Það snertir rannsókn sem FBI-lögreglumenn stunduðu hér á landi með vitund íslenskra yfirvalda á póltíska ábyrgð Ögmundar Jónassonar ráðherra. Hvers vegna er málið ekki tekið fyrir á alþingi og Ögmundur látinn upplýsa það? Ögmundur slær úr og í. Hann ætlar kannski að skýra frá málavöxtum á mótmælafundi við bandaríska sendiráðið?
Viðtalsþáttur minn við Stefaníu Óskarsdóttur, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, á ÍNN hinn 3. febrúar um stjórnarskrármálið er kominn á netið og má skoða hann hér.