Sunnudagur 03. 02. 13
Árni Páll Árnason, nýr formaður Samfylkingarinnar, telur sig hafa vald til að ákveða hvort Jóhanna Sigurðardóttir situr áfram sem forsætisráðherra eða ekki. Því er hampað að hann hafi talað frá hægri í ræðu sinni á landsfundinum. Tali hann frá hægri en lætur Jóhönnu sitja áfram er talið merkingarlaust.
Telji Árni Páll að Jóhanna sjái kannski það sem hann hefur ritað á vegginn sýnir það aðeins pólitískt skilningsleysi. Jóhanna hefur aldrei sé það sem skrifað er á vegginn, hún lifir aðeins í eigin hugarheimi. Leitun er að forsætisráðherra sem farið hefur verr með vald sitt en hún. Árni Páll verður að beita pólitísku afli og snúa þingflokki Samfylkingarinnar á sveif með sér ef hann ætlar að losna við Jóhönnu.
Líklegast er að þetta sé allt í nösunum á Árna Páli. Hann er ekki maður pólitískrar sannfæringar. Hann kom inn í Samfylkinguna frá vinstri, úr Alþýðubandalaginu. Um tíma starfaði hann í utanríkisþjónustunni og taldi síðar að sími sinn hefði verið hleraður, Hann hafði ekkert fyrir sér í því. Árni Páll var handgenginn Halldóri Ásgrímssyni sem utanríkisráðherra og veitti honum ráðgjöf.
Nú er sem sagt talið að Árni Páll ætli að ögra Sjálfstæðisflokknum og það frá hægri. Auðvitað er nauðsynlegt að átta sig vel á því hvað Árni Páll hefur fram að færa. Hitt skiptir þó ekki síður máli að skoða pólitíska fortíð hans sem einkennist ef sérstæðu ístöðuleysi og tækifærismennsku. Að slíkur maður veljist til forystu í Samfylkingunni er rökrétt miðað við stefnu flokksins og stöðu hans núna þegar menn átta sig á hve lítið hald er í flokknum fyrir þjóðarhag. Hann spólar í hjólförum óvildar sem jaðrar við hatur á Sjálfstæðisflokknum.